Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 405/1992
Gjaldár 1990
Lög nr. 8/1962 — II. kafli Lög nr. 75/1981 — 81. gr. 2. og 3. mgr.
Eignarskattur — Eignarskattsstofn — Hjón — Sköttun hjóna — Eftirlifandi maki — Sköttun eftirlifandi maka — Óskipt bú — Búsetuleyfi — Leyfi til setu í óskiptu búi — Erfingi — Einkaerfingi — Dánarár — Gildistaka skattalaga
Í kæru til skattstjóra, dags. 14. ágúst 1990, var mótmælt eignarskattsálagningu á kæranda gjaldárið 1990. Var tekið fram, að eiginmaður kæranda hefði andast 19. janúar 1988. Þeim hefði ekki orðið barna auðið og væri kærandi því eini erfinginn. Því hefðu ekki verið skilyrði fyrir setu í óskiptu búi. Hins vegar væri augljóst sanngirnismál og í samræmi við eðli málsins, að kærandi nyti þess aðlögunartíma m.t.t. eignarskattsálagningar, er mælt væri fyrir um í 2. mgr. 81. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 9. gr. laga nr. 51/1989, um ráðstafanir vegna kjarasamninga, er breytti nefndri grein laga nr. 75/1981. Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 1. október 1990, og synjaði henni. Forsendur skattstjóra eru svohljóðandi í úrskurðinum: „Heimild til ákvörðunar eignarskatts samkvæmt 9. gr. laga nr. 51/1989, sbr. 81 gr. laga nr. 75/1981, er bundin því skilyrði að viðkomandi hafi heimild til setu í óskiptu búi frá tilheyrandi fógetaembætti, sbr. II. kafla erfðalaga nr. 8/1962. Þar sem slík heimild til gjaldanda liggur ekki fyrir er kæru synjað.“
Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 23. október 1990, og ítrekar hann kröfuna um lækkun eignarskatts með skírskotun til 2. mgr. 81. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 9. gr. laga nr. 51/1989. Þá segir svo í kærunni: „Tilgangur 9. gr. l. nr. 51/1989 virðist fyrst og fremst sá að gefa ekkjum og ekklum nokkurn tíma til að átta sig á breyttum aðstæðum án þess að knýja á um sölu fasteigna eða annarra eignarskattsskyldra eigna. Ekkja eða ekkill, sem er barnlaus, getur ekki sótt um heimild til setu í óskiptu búi, en missir maka þegar svo stendur á, er enn tilfinnanlegri en þegar börn eru til staðar.“
Með bréfi, dags. 14. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Kærandi situr ekki í óskiptu búi eftir lát eiginmanns síns, enda engu slíku búi til að dreifa með því að kærandi var eini erfingi hins látna, sbr. II. kafli laga nr. 8/1962, erfðalaga. Sú tilhögun eignarskattsálagningar eftirlifandi maka, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 81. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatts og eignarskatts, sbr. 9. gr. laga nr. 51/1989, er bundin við setu í óskiptu búi. Verður því að synja kröfu kæranda. Rétt er að taka fram, að sú breyting, sem gerð var á 81. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með 2. gr. laga nr. 68/1990 og varðar eignarskattsálagningu eftirlifandi maka eða sambúðaraðila á dánarári maka eða sambúðaraðila kom til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 1991 vegna tekna á árinu 1990 og eigna í lok þess árs.