Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 601/1980
Gjaldár 1979
Lög nr. 68/1971, 7. gr., 41. gr.
Skattskyldar tekjur — Afbrigðileg viðskipti — Áætlunarheimild — Vanreifun — Frávísun
Krafist er ógildingar á úrskurði skattstjóra, dags. 14. desember 1979. Um rökstuðning og málavexti er vísað til kæru til skattstjóra og boðað að nánari greinargerð verði send síðar. Af hálfu ríkisskattstjóra er gerð svofelld krafa:
„Með því að ekki verður séð að kæran hafi að geyma fullnægjandi kröfugerð og boðuð viðbótargreinargerð hefur enn eigi borist er gerð krafa um frávísun kærunnar frá ríkisskatta-nefnd.“
Gögn málsins gefa greinilega til kynna um hvað deilt er og í kæru til skattstjóra kemur fram allítarlegur rökstuðningur. Eru því ekki efni til að vísa kærunni frá sökum vanreifunar.
Á skattframtali kæranda gjaldárið 1979 kemur fram skuld 9 764 350 kr. Lánveitandi er hlutafélag sem kærandi er hluthafi í.
Skattstjóri óskaði eftir að kærandi gæfi upp með hvaða kjörum lán þetta væri. Í svar-bréfi kæranda kemur fram að lán þetta sé tilkomið vegna kaupa á hlutabréfum í félaginu en enn hafi ekki verið gengið frá lánakjörum.
Að fengnum þessum upplýsingum var kæranda með bréfi, dags. 26. júlí 1979, tilkynnt um hækkun tekna en í bréfi skattstjóra segir m. a.:
„Sýnt þykir með bréfi yðar, dags. 6. júlí s. 1., að þér njótið annarra kjara en almennt gerist vegna skuldar yðar við X h.f.
Með tilliti til hlutafjáreignar yðar í fyrirtækinu og með vísan til 1. ml. 1. mgr. 7. gr. skattalaganna nr. 68/1971, sbr. 2. mgr. D-liðar sömu málsgreinar, ber að telja slík lánskjör til skattskyldra tekna.
Þar sem ekkert liggur fyrir um hvenær árs skuld yðar myndaðist eru yður áætlaðar tekjur sem svarar 25% vöxtum í níu mánuði af skuldarupphæð eins og hún var í árslok árið 1978, eða kr. 1 527 122.“
Þessari hækkun er mótmælt af hálfu umboðsmanns kæranda og í rökstuðningi hans kemur fram m a.:
„Skattstjóri hefur reiknað tekjur vegna lánskjara og áætlaðar tekjur með tilvísan til 7. gr. 2. mgr. D. liðar, sem hljóðar þannig:
„Til arðs af hlutabréfum telst auk venjulegrar arðgreiðslu sérhver afhending verðmæta til hluthafa, er telja verður sem tekjur af hlutaeign þeirra í félaginu.“
Skattstjóri fellir mjög viðamikla og nýja skilgreiningu á tekjuhugtakinu inn í þennan þrönga ramma. Innan þessa ramma geta alls ekki fallið lánskjör manna í millum eða frá sameignarfélagi og því verður að leita víðtækari skilgreiningar í lögum. Ekki er líklegt að löggjafinn hafi í þessari málsgrein höfðað til þeirra verðbólguvandamála sem óneitanlega hafa brenglað tekjuhugtakið.
Líta verður svo á að „afhending verðmæta“ sé í þessu tilfelli eignaafhending, en hér er um lán að ræða.“
Ekki er að finna í lögum nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, ótvíræða heimild til handa skattyfirvöldum að áætla tekjur í tilviki kæranda. Er krafa kæranda tekin til greina.