Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 628/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 38. og 40. gr.  

Málsmeðferð áfátt — Bifreiðakostnaður — Vanreifun

Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1979 að lækka gjaldfærðan bifreiðakostnað á rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1978 um alls 489 224 kr. eða úr 729 724 kr. í 240 500 kr.

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 22. júní 1979, krafði skattstjóri kæranda um greinargerð um notkun bifreiðar við læknisstörf. Með bréfi, dags. 29. júní 1979, svaraði kærandi þessari fyrirspurn. Notkun bifreiðar kvað hann vera vegna starfa sinna við Landspítalann, en því starfi fylgdi vaktakvöð, læknastofu og vegna starfa við Sjúkrahús Keflavíkur, en þangað færi hann einu sinni í viku. Með bréfi, dags. 20. júlí 1979, tilkynnti skattstjóri kæranda um, að frádreginn bifreiðakostnaður hefði verið lækkaður um 207 000 kr. vegna áætlaðra eigin afnota. Þessu mótmælti kærandi í kæru, dags. 27. júlí 1979, með vísan til áður framkominna skýringa og benti jafnframt á, að í eigu hans væri önnur bifreið, er notuð væri vegna heimilishaldsins.

Í úrskurði sínum, dags. 2. nóvember 1979, áætlar skattstjóri heildarakstur kæranda 20 000 km, með því að engin grein hafi af kæranda hálfu verið gerð fyrir heildarakstri og skiptingu hans til atvinnu- og einkaþarfa. Frádráttarbæran kostnað taldi skattstjóri koma til álita vegna vaktútkalla og aksturs í þágu læknastofu. Áætlaði skattstjóri akstur vegna þessa alls 406 000 kr. eða 23% af heildarakstri. Í samræmi við þessa niðurstöðu sína ákvað skattstjóri frádráttarbæran kostnað 240 500 kr. og lækkaði nú enn til viðbótar fyrri lækkun bifreiðakostnaðinn um 282 224 kr.

Af hálfu kæranda er þess krafist aðallega, að frádráttarbær bifreiðarkostnaður verði hækkaður úr 240 500 kr. í 658 500 kr, og byggir kærandi þá á því, að leyfður verði frádráttur vegna aksturs milli heimilis og vinnustaðar, þ.e. fasts starfs á Landspítala, 4 435 km á árinu og 3 600 km vegna ferða til Keflavíkur vegna starfa við sjúkrahúsið þar eða alls 63% af áætluðum heildarakstri. Til vara krefst kærandi þess, að frádráttarbær bifreiðakostnaður verði hækkaður í 428 500 kr. eða sem svarar til 41% af heildarakstri og er þá akstri vegna fasts starfs á Landspítala sleppt.

Skattstjóri tilkynnti kæranda um lækkun gjaldfærðs bifreiðakostnaðar um 207 000 kr. með bréfi sínu, dags. 20. júlí 1979, að fenginni umbeðinni greinargerð kæranda um bifreiðanotkun til atvinnuþarfa. Í úrskurði sínum eykur skattstjóri við fjárhæð þessa 282 224 kr. með þar greindum rökstuðningi. Telja verður, að skattstjóra hafi borið að gefa kæranda sérstaklega tækifæri til að gæta hagsmuna sinna, áður en hann ákvað með þessum hætti að breyta fyrri ákvörðun sinni kæranda í óhag. Af þessari ástæðu er hin síðari lækkun gjaldfærðs bifreiðakostnaðar, 282 224 kr., úr gildi felld. Að öðru leyti þykja eigi efni til breytinga á úrskurði skattstjóra, enda liggja engar upplýsingar fyrir um heildarakstur bifreiðar kæranda og skiptingu hans og eftir þessari niðurstöðu eru 50% af heildarbifreiðakostnaði til frádráttar á rekstrarreikningi, er telja verður kæranda eigi óhagstætt þegar litið er til starfsemi hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja