Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 633/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 7. gr. A-liður  

Endurgreiddur útlagður kostnaður — Fæðiskostnaður

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1979.

Kæruefnið er niðurfelling skattstjóra á frádráttarliðnum „Kostnaður v/ferða með sjúkrabifreið“ 18 050 kr. Málavextir eru þeir, að kærandi hafði með höndum akstur sjúkrabifreiðar á vegum Rauðakrossdeildar ...læknishéraðs. Hafði hann vegna þessara starfa launatekjur að fjárhæð 217 268 kr. Sem kostnað færði hann ofannefnda fjárhæð í frádráttarhlið skattframtals síns. Rökstuddi kærandi kröfu sína svo, að hér hefði verið um fæðiskostnað að ræða, sem orðið hefði til við öflun tekna af akstrinum og væri kostnaðurinn því frádráttarbær. Skattstjóri byggði niðurstöðu sína á því, að samkvæmt launamiða væri einungis um að ræða greiðslu vegna akstursstarfa, en ekki kæmi fram, að hluti greiðslunnar væri vegna fæðiskostnaðar í sambandi við starfið. Ætti krafa kæranda sér ekki stoð í lögum eða reglugerðum og yrði því að hafna henni.

Með kæru, dags. 8. nóvember 1979, til ríkisskattanefndar, ítrekar kærandi fyrri kröfu með sömu rökum og áður.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar þær kröfur með bréfi, dags. 13. október 1980, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eftir atvikum þykir mega fallast á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja