Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 645/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 17., 40. og 41. gr.  

Arðsfrádráttur — Kæruaðild

Með kærubréfi, dags. 6. ágúst 1979, til skattstjóra var álagning tekjuskatts á kæranda, sem var hlutafélag, kærð til lækkunar. Taldi kærandi að af mistökum hefði verið lagt á arð, sem hluthöfum hefði verið greiddur og talinn þeim til tekna á árinu 1978.

Skattstjóri hafnaði lækkunarkröfu kæranda á hinum álagða tekjuskatti á þeirri forsendu, að einungis væri heimilt að draga frá tekjum útborgaðan arð, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 8. gr. laga nr. 11/1975.

Úrskurði þessum skaut kærandi til ríkisskattanefndar með kærubréfi dags. 3. desember 1979. Í því er m.a. frá því greint, að arður sem samþykktur hafi verið til greiðslu á aðalfundi kæranda 18. apríl 1979 vegna ársins 1978 sé reikningsfærður hjá hluthöfum við lokun bókhalds fyrir árið 1978. Hjá sumum myndi þetta innstæðu en hjá öðrum lækki þetta skuld. Þá er bent á, að ráðstafanir hafi verið gerðar til þess að þetta væri talið fram sem tekjur ársins 1978 hjá hluthöfum. Kærandi fer fram á úrskurð nefndarinnar um réttmæti þess að leggja tekjuskatt á þennan arð, eins og gert hafi verið bæði hjá hluthöfum og hjá kæranda, sem arðinum hafi úthlutað.

Af ríkisskattstjóra hálfu er í málinu gerð svofelld krafa fyrir gjaldkrefjanda hönd með bréfi dags. 15. október 1980:

„Með vísan til afdráttarlauss orðalags 1. mgr. 17. gr. laga nr. 68/1971, sbr. og forsendur í úrskurði skattstjóra er gerð krafa um að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.“

Hið afdráttarlausa orðalag 1. mgr. 17. gr. laga nr. 68/1971 þykir því til fyrirstöðu, að krafa kæranda um frádrátt hinnar umræddu arðsfjárhæðar 1 920 000 kr. við útreikning skattgjaldstekna hans 1979 verði tekin til greina. Ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð skattstjóra.

Eigi verður með þessum úrskurði kveðið á um réttmæti álagningar opinberra gjalda 1979 á hluthafa kæranda. Kröfu um það er vísað frá, enda eiga þeir sjálfstæðan kærurétt eftir ákvæðum 40. og 41. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja