Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 647/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 30/1970, 12. gr.   Lög nr. 68/1971, 12. gr.  

Námsfrádráttur — Viðhaldskostnaður — Skyldusparnaður — Vanreifun

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1979. Kæruatriði eru sem hér greinir.:

1. Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að strika út skólagjöld 70 000 kr., er kærandi hafði fært til frádráttar í skattframtali sínu árið 1979. Kærandi stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík 1. janúar 1978—31. maí 1978 í blásaradeild og 1. október 1978—31. desember í kennaradeild samkvæmt framlögðu námsvottorði skólans. Heimilaði skattstjóri kæranda námsfrádrátt vegna náms þessa 305 000 kr. samkvæmt 1. tl. B-liðs III. kafla skattmats ríkisskattstjóra framtalsárið 1979. Skattstjóri synjaði um frádrátt vegna skólagjalda, þar sem kvittun fyrir greiðslu þeirra hefði ekki verið lögð fram. Kærandi kveðst hafa glatað einhverjum af kvittunum þessum. Kæru hans fylgdi ein kvittun, dags. 7. nóvember 1978, fyrir greiðslu skólagjalda að fjárhæð 25 000 kr. fyrir skólaárið 1978—1979.

2. Skattstjóri strikaði út frádráttarliðinn „viðhald hljóðfæra“ 300 000 kr. með því að engin hljóðfæri væru talin til eignar, engar kvittanir lagðar fram og ekki yrði séð, að hljóðfæri væru notuð til öflunar tekna. Kærandi krefst þess, að viðhaldskostnaður þessi verði a.m.k. að einhverju leyti tekin til greina, enda séu hljóðfærin bæði notuð við nám hans og kennslu.

3. Skattstjóri felldi niður skyldusparnað, 317 638 kr., samkvæmt lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins, er kærandi hafði fært til lækkunar á framtöldum tekjum. Byggði skattstjóri á því, að kærandi hefði verið við nám í meira en 6 mánuði á árinu 1978 og væri því undanþeginn sparnaðarskyldu. Kærandi getur þess í kæru til ríkisskattanefndar, að honum sé þessi sparnaður heimill, enda þótt um skyldu í þeim efnum kunni ekki að vera að ræða. Lætur kærandi fylgja kæru vottorð veðdeildar Landsbanka Íslands, dags. 15. október 1979, um að hann hafi á árinu 1978 lagt inn á skyldusparnaðarreikning 368 581 kr. Krefst kærandi þess að fá skyldusparnaðinn til frádráttar.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi, dags. 27. október 1980, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Um 1. tl. í samræmi við framlagða kvittun er á það fallist að heimila kæranda til frádráttar 25 000 kr. vegna greiddra skólagjalda, sbr. b-lið 10. tl. B III. kafla skattmats ríkisskattstjóra framtalsárið 1979.

Um 2. tl. Kærandi þykir ekki hafa gert þá grein fyrir hinum umkrafða frádrætti, að efni séu til þess að verða við kröfu hans. Með þessari athugasemd er úrskurður skattstjóra staðfestur að því er þetta kæruatriði varðar.

Um 3. tl. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 30/1970, um Húsnæðismálastofnun ríkisins, er skólafólk, sem stundar nám í skóla 6 mánuði eða meira á ári, undanþegið sparnaðarskyldu þeirri, er um ræðir í lögum þessum. Með vísan til þess og upplýsinga þeirra, er fyrir liggja í máli þessu um skólanám kæranda á árinu 1978, þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra að því er þetta kæruatriði varðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja