Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 683/1980
Gjaldár 1979
Lög nr. 48/1975, 1. gr. Lög nr. 68/1967, 5. gr.
Gjaldskylda til Iðnlánssjóðs — Iðnlánasjóðsgjald — Iðnaðarmálagjald
Í kæru til skattstjóra krafðist kærandi, sem er hlutafélag, að iðnlánasjóðsgjald yrði lagt á félagið. Í skattframtali árið 1979 kæmi fram, að sala, er myndaði stofn til álagningar iðnlánasjóðsgjalds næmi 9 387 200 kr. Með úrskurði, dags. 24. október 1979, synjaði skattstjóri kröfu kæranda með því, að ekki yrði séð af skattframtali eða ársreikningum kæranda, að hann hefði nokkurn iðnrekstur með höndum. Þá væri tilgangur hlutafélagsins samkvæmt tilkynningu til Hlutafélagaskrár Reykjavíkur, dags. 21. mars 1978, umboðs-, smásölu- og heildverslun svo og rekstur fasteigna og lánastarfsemi.
Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 31. október 1979, og ítrekar kröfu sína að umrætt gjald verði lagt á hann. Í kærunni er tekið fram, að kærandi annist suðu og samsetningu innfluttra ofna og við það verkefni starfi iðnlærðir menn.
Þá fylgdi kærunni afrit af tilkynningu kæranda til Hlutafélagaskrár Reykjavíkur, dags. 5. nóvember 1979, um að samþykkt hafi verið á hluthafafundi í félaginu þann 26. maí 1978, að breyta tilgangi félagsins þannig að hann skyldi auk þess er að ofan greinir einnig vera iðnrekstur.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 3. nóvember 1980:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.
Röksemdir:
Við rökstuðning skattstjóra er því einu að bæta að launagreiðslur eru taldar greiddar fyrir verslunarstörf.
Að vísu er ekki vitað fyrir hvað greiðslur til verktaka, 1 182 000 kr., eru. Jafnvel þó þær væru til iðnaðarmanna vegna uppsetningar á ofnum eða þ. u. 1. er ekki frekar ástæða til að telja slíkan þátt í verslunarþjónustu skapa iðnlánasjóðsgjaldsskyldu heldur en ýmislegt annað sem henni tengist.“
Svo sem málsatvikum er háttað þykja eigi efni til annars en byggja á upplýsingum kæranda um að hann stundi að hluta til starfsemi, er gjaldskyld sé samkvæmt 5. gr. laga nr. 68/1967, um Iðnlánasjóð. Með vísan til þessa og þar sem stofn sá, er kærandi tilgreinir hefur eigi sérstaklega verið vefengdur, þykir bera að fallast á kröfur kæranda. Jafnframt þykir bera að gera kæranda að greiða iðnaðarmálagjald, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1975, um iðnaðarmálagjald.