Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 689/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 41. gr.   Lög nr. 35/1960, 10. gr.   Lög nr. 22/1956  

Heimilisfesti — Tvísköttunarsamningur — Skattlagningaraðferð

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1979.

Málavextir eru þeir, að skattstjóri tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 24. júlí 1979, að álagningu opinberra gjalda hans hefði verið hagað í samræmi við ákvæði laga nr. 22/1956, um skatt- og útsvarsgreiðslur útlendinga, gjaldenda, sem eru á förum úr landi o. fl., vegna brottfarar kæranda á árinu 1978 til mjólkurfræðináms í Danmörku. Námu álögð opinber gjöld kæranda samkvæmt þessari álagningu 448 966 kr. Samkvæmt skattskrá 1979 höfðu verið lögð á kæranda opinber gjöld samtals að fjárhæð 34 757 kr. Álagningu þessa kærði umboðsmaður kæranda til skattstjóra með kæru, dags. 23. ágúst 1979, sbr. og bréf hans, dags. 22. október 1979, ásamt fylgiskjölum. Var farið aðallega fram á niðurfellingu gjaldanna, en til vara lækkunar. Með hinu síðara bréfi fylgdu launamiðar vegna starfa kæranda og eiginkonu hans í Danmörku á árinu 1978, en laun þessi voru ekki tilgreind í skattframtali árið 1979. Samkvæmt launamiðunum hafði verið greiddur af launum eiginkonu skattur í Danmörku. Námu laun kæranda sjálfs 9 344 d.kr. en eiginkonu hans 41 095 d.kr. Af kæranda hálfu var þess óskað, að á hann yrði lagt svo sem hann ætti lögheimili hérlendis.

Með úrskurði, dags. 31. október 1979, féllst skattstjóri á þá kröfu kæranda, að lagt yrði á hann svo sem hann ætti lögheimili hérlendis allt árið 1978 með vísan til 10. gr. laga nr. 35/1960, um lögheimili. Tók skattstjóri fram, að launum kæranda erlendis 463 182 kr. hefði verið bætt við tekjur hans. Ennfremur upplýsti skattstjóri, að tekjur eiginkonu erlendis hefðu áhrif á útreikning gjalda af skattskyldum tekjum hér á landi. Skattgjaldstekjur kæranda taldi skattstjóri nema samtals 2 031 009 kr., þar af 1 012 470 kr. eða 49,85% hérlendis, en 53,31% af tekjum til útsvars, er skattstjóri taldi nema alls 4 363 451 kr. Reiknaði skattstjóri gjöld kæranda eftir þessum hlutföllum. Eftir þessu námu álögð opinber gjöld samtals 278 274 kr. Hluti persónuafsláttar til greiðslu sjúkratryggingagjalds var ákveðinn 28 812 kr.

Kærandi unir eigi þessari niðurstöðu og hefur með kæru, dags. 20. nóvember 1979, til ríkisskattanefndar krafist leiðréttingar. Fram kemur að kærandi telur nettótekjur sínar 505 697 kr.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 28. október 1980:

„Að kærunni verði vísað frá í ríkisskattanefnd þar eð kærubréf er póstlagt samkvæmt póststimpli 22. nóvember eða degi eftir að frestur til kæru samkvæmt 41. gr. laga nr. 68/1971, með síðari breytingum, var útrunninn.“

Kæran telst hafa borist ríkisskattanefnd í tæka tíð, og er frávísunarkröfu ríkisskattstjóra því hrundið. Skattstjóri lagði á kæranda sem hér heimilisfastan samkvæmt ósk hans þar um. Tekjur kæranda að fjárhæð 9 344 d.kr., er eigi verður séð að hafi verið skattlagðar í Danmörku, frá Mejerikontoret, Árósum, færði skattstjóri kæranda til tekna eftir meðalgengi .kr. yfir árið með 49,57 ísl. kr. Verður að fallast á þessa ákvörðun skattstjóra, sbr. 20. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Danmerkur, er birtur er með auglýsingu nr. 13, 1. júní 1970, í C-deild Stjórnartíðinda. Þá tók skattstjóri tillit til tekna eiginkonu kæranda í Danmörku við ákvörðun opinberra gjalda samkvæmt þeirri aðferð, er greinir í 24. gr. nefnds samnings (deiliaðferðar).

Að öðru leyti verður eigi annað séð, en skattstjóri hafi hagað álagningunni réttilega að því undanskildu, að tekjur til útsvars hérlendis þykir bera að lækka um 63 678 kr., sem er gjaldfærður hluti fasteignagjalda á móti húsaleigutekjum. Er álagningin leiðrétt í samræmi við þetta.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja