Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 713/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 3. gr., 18. gr.  

Tekjur eiginkonu — Ákvörðun söluverðs — Óvenjulegir samningar — Sératkvæði — Sala bústofns — Skattmat ríkisskattstjóra

Kærð er álagning opinberra gjalda á kæranda, gjaldárið 1979.

I.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi þátttakandi í búrekstri með tveimur bræðrum sínum. Þann 10. ágúst 1978 stofnuðu bræðurnir ásamt eiginkonum sínum hlutafélag (B h.f.) um rekstur bús síns og seldu alla fjármuni sína, þar með talinn bústofn, vélar, innréttingar og hús öll, að undanskildum þremur íbúðarhúsum, er þeir bræður bjuggu sjálfir í, og tók B hf. jafnframt við öllum rekstri frá sama degi.

Með bréfi, dagsettu 4. júlí 1979, óskaði skattstjóri, með vísun til ákvæða 1. mgr. 37. gr. laga nr. 68/1971, eftir skýringum við skattframtal kæranda árið 1979. Segir m. a. svo í bréfi skattstjóra:

„Við samanburð á skattframtölum yðar og B h.f., árið 1979, kemur fram að þér seljið félaginu bústofn yðar á 38 000 000 kr. Skattmat ríkisskattstjóra á umræddum bústofni í ársbyrjun 1978 nam 40 959 000 kr. og í árslok 1978 63 748 000 kr. og nemur aukning alls á skattmati 22 789 000 kr. Söluverð á bústofni þykir tortryggilega lágt og talið er að þannig sé verið að flytja tekjur á milli aðila.

Skýringar óskast.“

Umboðsmaður kæranda svaraði fyrirspurnarbréfi skattstjóra með bréfi dags. 9. júlí 1979. í því eru eftirfarandi skýringar gefnar:

„Þegar umræddur bústofn var seldur B h.f. var tekið tillit til þess magns sem selt var og að selt var á einu bretti, því venjur þær sem um sölu gilda eru einmitt að þegar um stóran bústofn er að ræða þá er jafnan selt og keypt fyrir miklu lægra verð heldur en þegar um fáeina gripi er að ræða. Var mjög tekið tillit til þessa við mat á bústofni seldum B h.f."

Með bréfi, dags. 20. júlí 1979, tilkynnti skattstjóri kæranda m.a. eftirfarandi:

„1. Söluverð á bústofni til B h.f. þykir tortryggilega lágt bæði hvort sem miðað er við almennt markaðsverð eða mat ríkisskattstjóra á bústofni pr. 31. desember 1977 og pr. 31. desember 1978. Upplýsingar í svarbréfi yðar skýra ekki með fullnægjandi hætti það verulega frávik er er í söluverðinu annars vegar og almennu markaðsverði eða matsverði hins vegar.

Hlutafé B h.f. er allt í hendi yðar og bræðra yðar og telja verður að með því að meta söluverð bústofns á svo lágu verði að þá sé verið að flytja tekjur á milli hagsmunaaðila. Verður því að ákvarða söluverð á bústofni og þykir það hæfilega metið 55 000 000 kr., og er þá tekið mið af mati ríkisskattstjóra á bústofni pr. 31. desember 1977 og pr. 31. desember 1978 og jafnframt er tekið tillit til hvenær á árinu sala bústofns fór fram.

...

4. 50% frádráttur vegna launatekna eiginkonu er lækkaður í 285 500 kr., — með vísun til ákvæða 3. mgr. 3. gr. laga nr. 6811971 um tekjuskatt og eignarskatt.

Athugasemdir þurfa að hafa borist skattstjóra skriflega fyrir lok lögákveðins kærufrests eftir útkomu skattskrár.“

Breyting samkvæmt 1. tölulið í framangreindu bréfi skattstjóra leiddi til hækkunar á framtöldum tekjum kæranda á skattframtali 1979 um 5 666 666 kr.

Hin álögðu opinberu gjöld á kæranda gjaldárið 1979 voru kærð til skattstjóra með bráðabirgðakæru, dags. 2. ágúst 1979. Með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 6. september 1979, til skattstjóra var nánari grein gerð fyrir kæruatriðum. í því segir m.a.:

„Þegar tekin var sú ákvörðun á árinu 1978 af M o.fl. að stofna um rekstur búsins hlutafélag, sem tæki við öllum eignum þess, að undanskildum nýjum íbúðarhúsum, þremur að tölu, stóðu þeir bræður frammi fyrir því vandamáli, að ákvarða söluverð á bústofni, vélum, tækjum, innréttingum, húsum og löndum. Var tekin ákvörðun um að miða við eins eðlilegt markaðsverð og þeim tækist að geta sér til um að frádregnum eðlilegum magnafslætti, þar sem hér var um svo háar fjárhæðir að ræða í einum og sama gjörningi. Eftir mikla umhugsun og öflun upplýsinga voru eftirtaldar þrjár meginreglur látnar gilda um mat á fjármunum:

1. Bústofn: Við mat á verðmæti bústofns var reynt að gera sér í hugarlund hvert verða myndi matsverð frá ríkisskattstjóra um áramótin 1978/1979, og gefa af því 40% magnafslátt, þar sem um svo mikinn og stóran bústofn var að ræða. Gæta ber þess, að ef bera á saman matsverð og söluverð, þá er afsláttur þessi í raun mun minni, þar sem salan átti sér stað tæpum fimm mánuðum fyrr.

...

M o. fl. fara fram á að tekjuviðbót skattstjóra að upphæð 17 000 000 kr. á þeim forsendum að um tortryggilega lágt mat á seldum bústofni í hendur B h.f. væri að ræða, verði felld niður á ofangreindum forsendum. Þá vilja þeir bæta því við, að þeir telji það ekki vera í verkahring skattstofu að ákveða hvað sé rétt og hvað sé rangt kaupverð á fjármunum hjá B h.f.

Að lokum fara M o.fl. fram á að 50% frádráttur vegna launatekna eiginkvenna haldist óbreyttur, þar sem engin ein hjón eigi meirihluta aðild að B h.f.“

Skattstjóri kvað upp úrskurð í málinu og er hann dagsettur 5. október 1979. í úrskurðinum segir m.a.:

„Forsendur úrskurðar:

Söluverð bústofnsins til B þótti tortryggilega lágt hvort sem miðað er við almennt markaðsverð eða mat ríkisskattstjóra á bústofni.

Í kæru gjaldanda kemur fram að við ákvörðun söluverðs hafi verið miðað við eins eðlilegt markaðsverð og honum hefði tekist að geta sér til um að frádregnum eðlilegum magnafslætti. Eins og fram kemur í bréfi skattstjóra, dags. 20. júlí 1978, er hlutafé B h.f. allt í hendi gjaldanda og bræðra hans og telja verður að með því að meta söluverð bústofns á svo lágu verði ... sé verið að flytja tekjur milli hagsmunaaðila.

Með hliðsjón af framangreindu þykir verða að staðfesta áætlun skattstjóra og er því kröfu kæranda er varðar þetta kæruatriði synjað. 2. Eigi er fallist á þetta kæruatriði og er vísað til skiptingar á hlutafé félagsins svo og til ákvæða 3. mgr. 3. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt.

Úrskurðarorð:

Álögð gjöld árið 1979 standi óbreytt.“

II.

Umboðsmaður kæranda skaut úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kærubréfi, dagsettu 22. október 1979. Í því vísar umboðsmaðurinn m.a. til þeirra atriða, er fram koma í kæru hans til skattstjóra.

Gerðar eru eftirfarandi kröfur í kærunni til ríkisskattanefndar:

„Með bréfi þessu er kærð sú ákvörðun skattstjóra að ákvarða á eigin spýtur söluverð á seldum bústofni í hendur B h.f. og þar með tekjur M o.fl. um 17 000 000 kr. auk þess, sem kærð er niðurstrikun á 50% frádrætti vegna launatekna eiginkvenna og á það bent að engin ein hjón eigi meirihluta eignaraðild að B h.f.“

III.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 9. september 1980, fyrir hönd gjaldkrefjenda gert svofelldar kröfur í málinu:

„Í hinum kærða úrskurði og undirgögnum hans koma fram ítarlegar forsendur þeirra breytinga sem skattstjóri gerði á framtali kæranda. Með vísan til þeirra forsendna er gerð krafa um að úrskurðurinn verði staðfestur.“

IV.

Atkvæði meirihluta:

Skattstjóri hefur með samanburði á söluverði búfjár kæranda og bræðra hans við sölu til B h.f. og ætluðu almennu markaðsverði og reiknuðu skattmatsverði miðað við 31. desember 1977 og 31. desember 1978 að teknu tilliti til söludags talið söluverð þetta svo afbrigðilega lágt, að líta yrði svo á með hliðsjón af því, hversu aðild að viðskiptum þessum væri háttað, að verið væri að flytja tekjur milli hagsmunaaðila.

Að virtum gögnum málsins þykja eigi hafa verið leidd að því næg rök, að viðskiptum þeim, er hér um ræðir hafi verið á þann veg farið, að efni geti verið til skattlagningar með þeim hætti er skattstjóri hefur talið. Er því fallist á kröfu kæranda.

Í tilkynningu til hlutafélagaskrár, dags. 9. ágúst 1978, um stofnun hlutafélagsins B, er birtist í Lögbirtingablaði nr. 16, 23. febrúar 1979, eru stofnendur félags þessa taldir kærandi og bræður hans tveir ásamt eiginkonum þeirra. Í stjórn félagsins er kærandi og bræður hans.

Hlutafé félagsins nemur 3 000 000 kr. Eru kærandi og eiginkona hans eigendur að þriðjungi hlutafjárins. Svo sem atvikum er hér háttað þykir verða að fara um frádrátt frá launum eiginkonu eftir 3. mgr. 3. gr. laga nr. 68/1971 með síðari breytingum. Er úrskurður skattstjóra því staðfestur að því er þetta kæruatriði.

Atkvæði minnihluta:

Eins og máli þessu er háttað tel ég að breyting sú sem varð á rekstrarformi búrekstrar kæranda og bræðra hans eigi ekki að leiða til myndunar skattskylds söluhagnaðar eða frádráttarbærs taps hjá þeim og beri því að hækka tekjur kæranda frá framtali hans. Þar sem meirihluti ríkisskattanefndar hefur orðið við kröfu kæranda um niðurfellingu viðbótartekna skattstjóra vegna sölu bústofnsins, sé ég ekki ástæðu til að fjalla frekar um málið.

Ég er sammála niðurstöðu meirihluta ríkisskattanefndar varðandi takmörkun á frádrætti frá launum eiginkonu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja