Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 715/1980
Gjaldár 1979
Reglugerð nr. 94/1979 Lög nr. 67/1971, sbr. lög nr. 59/1978
Lífeyristryggingagjald — Slysatryggingagjald — Tengsl eldri laga og yngri — Tvísköttun — Lögskýring — Munnlegur málflutningur
Kærð er álagning iðgjalda samkvæmt 25. og 36. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, sbr. lög nr. 59/1978, um breytingar á þeim lögum, gjaldárið 1979, á laun og aflahluti lögskráðra sjómanna vegna vinnu þeirra í þágu kæranda á árinu 1978.
I.
Málavextir eru þeir að í skattskrá þeirri sem lögð var fram árið 1979 voru m.a. lögð á kæranda lífeyris- og slysatryggingaiðgjöld atvinnurekenda vegna lögskráðra sjómanna, er unnu hjá kæranda á árinu 1978. Stofn þessara gjalda var laun og aflahlutir þeirra vegna þess árs. Kærandi undi eigi álagningu þessari og kærði hana til skattstjóra með kæru dags. 24. júlí 1979. Í kærunni gerir kærandi svofellda grein fyrir kröfum sínum:
„Forsendur kærunnar byggjum við, í fyrsta lagi, á því að áður nefnd tryggingargjöld séu lögð tvisvar sinnum á sama gjaldstofninn, að því leyti er tekur til aflahlutar sjómanna 170 306 912 kr. Á árinu 1978 greiddi félagið þessi gjöld fyrirfram ásamt lögskráningargjöldum og þá miðað við tryggingarvikur á sjó. Og nú eru gjöld þessi lögð aftur á félagið sem prósenta af greiddum launum. Mótmælum við harðlega þessari tvöföldu álagningu fyrir eitt og sama tryggingartímabilið.
Í öðru lagi viljum við benda á, að hér er um afturvirkar íþyngjandi álögur á lítinn hóp skattgreiðenda að ræða, þ.e.a.s. útgerðarmenn og félög. Í slíkum tilfellum hefur verið talin brýn þörf á að vernda hagsmuni gjaldenda sem fyrir slíku verða, sbr. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 1132 19/11 1973.
Þess má að lokum geta að verði þessi framkvæmd viðhöfð, koma þeir aðilar, sem hófu útgerð á árinu 1978 eða fyrr, til með að greiða þessi gjöld einu ári lengur en þeir gera út og verður slíkt að teljast mjög óeðlileg framkvæmd skattlagningar.
Í ljósi framangreindra staðreynda væntum við þess að þér lækkið álagt lífeyristryggingagjald um 3 406 138 kr. (2% af 170 306 912) og álagt slysatryggingagjald um 599 480 kr. (0,352% af 170 306 912).“
Með úrskurði, dags. 2. október 1979, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda og úrskurðaði að gjöldin skyldu standa óbreytt þar eð þau „virðast rétt á lögð samkvæmt lögum nr. 59/1978 og reglugerð nr. 94/1979.“
Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 22. október 1979. Þá hefur ríkisskattstjóri skilað kröfugerð sinni í kærumálinu og er hún dagsett 8. september 1980.
Ríkisskattanefnd ákvað að fram skyldi fara munnlegur málflutningur í málinu og fór hann fram 28. nóvember 1980. Gerðu aðilar málsins þá frekari grein fyrir kröfum sínum og málsástæðum. Áður en málflutningur fór fram hafði verið aflað ýmissa gagna í málinu.
II.
Fyrir ríkisskattanefnd eru gerðar þær aðalkröfur af hálfu kæranda að álagning slysatryggingagjalds atvinnurekenda skv. 36. gr. laga nr. 67/1971, sbr. 5. gr. laga nr. 59/1978 og álagning lífeyristryggingagjalds atvinnurekenda skv. 25. gr. laga nr. 67/1971, sbr. 3. gr. laga nr. 59/1978, eins og gjöld þessi voru ákveðin við almenna álagningu opinberra gjalda 1979, verði lækkuð sem nemur álagningu á gjaldstofn að fjárhæð 170 306 912 kr., þannig að álagt slysatryggingagjald lækki um 599 480 kr. og álagt lífeyristryggingagjald lækki um 3 406 138 kr. Til vara eru þær kröfur gerðar að álagt slysatryggingagjald og lífeyristryggingagjald lækki sem nemur fyrirframgreiddum iðgjöldum, er greidd voru á árinu 1978 og nema samtals 1 759 894 kr.
Af hálfu kæranda var m.a. á það bent, að um tvíálagningu nefndra gjalda vegna ársins 1978 væri að ræða af lögskráðum sjómönnum. Á kæranda hefðu gjöld þessi verið lögð fyrirfram á árinu 1978 við lögskráningu þeirra og hann staðið skil á gjöldunum til lögskráningarstjóra í samræmi við þágildandi ákvæði laga um almannatryggingar nr. 67/1971. Hefði fjárhæð gjaldanna fyrir árið 1978 verið ákveðin með reglugerðum nr. 467/1977 og nr. 468/1977. Álagning skattstjóra hefði verið byggð á lögum nr. 59/1978 um breyting á lögum nr. 67/1971 um almannatryggingar og reglugerð nr. 94/1979. Hefði álagningin leitt til þess að kæranda væri gert að tvígreiða nefnd gjöld fyrir sama tímabil vegna lögskráðra sjómanna, en til þess væri ekki heimild.
III.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru gerðar þær kröfur að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til afdráttarlauss gildistökuákvæðis laga nr. 59/1978, sbr. og reglugerð nr. 94/ 1979.
Af hálfu ríkisskattstjóra hefur m.a. verið á það bent, að lög nr. 59/1978 um breyting á lögum nr. 67/1971 um almannatryggingar hefðu orðið til á stjórnskipulegan hátt og birt með réttum hætti. Skattyfirvöld, þar með talin ríkisskattanefnd, væru bundin af lögum þessum og bæri að fara eftir skýrum og ótvíræðum ákvæðum þeirra. Heimilt hefði verið að krefja
kæranda um frekari greiðslur umræddra gjalda af lögskráðum sjómönnum vegna ársins 1978. Ekkert annað væri fram komið en að álagningin hefði verið rétt framkvæmd af hálfu skattstjóra og að öllu leyti í samræmi við lög, reglugerð og fyrirmæli ríkisskattstjóra.
IV.
Fyrir gildistöku laga nr. 59/1978 um breyting á lögum nr. 67/1971 um almannatryggingar var sú tilhögun á álagningu og innheimtu framlaga útgerðarmanna til lífeyristrygginga og iðgjalda til slysatrygginga af lögskráðum sjómönnum í þjónustu þeirra að þau voru lögð á fyrirfram við lögskráningu og innheimt af lögskráningarstjórum. Voru gjöld þessi miðuð við ákveðna fjárhæð fyrir hverja tryggingarviku. Tryggingarvikufjöldi sjómanna var skráningar- eða ráðningartími í skiprúm. Eftir reglum þessum greiddi kærandi nefnd gjöld vegna þeirra sjómanna, sem lögskráðir voru á skip hans á árinu 1978. Með þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um almannatryggingar með lögum nr. 59/1978 voru felldar niður reglur þær, sem gilt höfðu um álagningu og innheimtu nefndra gjalda vegna lögskráðra sjómanna. Var tekin upp eftir á gerð álagning og innheimta gjaldanna, en sú skipan hefur almennt gilt um skyldu atvinnurekenda af öðrum starfsmönnum en lögskráðum sjómönnum. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1979 voru umrædd gjöld lögð á kæranda vegna allra starfsmanna hans á árinu 1978 að meðtöldum lögskráðum sjómönnum. Var sú álagning byggð á lögum nr. 59/1978 og reglugerð nr. 94/1979. Eigi er í lögum nr. 59/1978, í athugasemdum við frumvarp til þeirra eða í öðrum þeim gögnum, sem til skýringa eru fallin á þeim, vikið að því hversu með skuli fara þegar breytt var fyrrnefndri álagningar- og innheimtuaðferð hinna umdeildu gjalda vegna lögskráðra sjómanna. Í 15. gr. laga nr. 59/1978 er mælt svo fyrir um að lögin öðlist gildi 1. janúar 1979 og komi til framkvæmda við álagningu iðgjalda gjaldárið 1979 vegna gjaldstofna ársins 1978.
Eigi þykja lög nr. 59/1978 um breyting á lögum nr. 67/1971 um almannatryggingar verða skýrð eða skilin svo, að í þeim felist heimild til álagningar þeirra gjalda sem um er deilt í kærumáli þessu, og er því fallist á aðalkröfur kæranda.