Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 764/1980
Gjaldár 1979
Lög nr. 68/1971, 15. gr.
Fyrning — Leigusamningur — Viðskiptavild — Réttaráhrif úrskurða
Kærandi fór þess á leit í kæru til skattstjóra, að afskriftum í atvinnurekstri kæranda yrði bætt inn á ársreikning fyrir árið 1978 og opinber gjöld gjaldárið 1979 endurreiknuð með tilliti til væntanlegrar niðurstöðu ríkisskattanefndar vegna álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1978. Þessu synjaði skattstjóri í úrskurði sínum, dags. 12. nóvember 1979, með því að niðurstöður ríkisskattanefndar hefðu eigi borist.
Í kæru til ríkisskattanefndar vísar kærandi til úrskurðar nefndarinnar nr. 1010, dags. 29. október 1979, varðandi ágreiningsefnið.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru gerðar svofelldar kröfur í málinu með bréfi, dags. 27. október 1980:
„Fallist er á að kæranda heimilist afskriftir í samræmi við úrskurð ríkisskattanefndar nr. 1010 frá 1979. Að öðru leyti er gerð krafa um staðfestingu á hinum kærða úrskurði.“
Með úrskurði ríkisskattanefndar nr. 1010, 29. október 1979, var kæranda heimiluð afskrift að fjárhæð 615 384 kr. af verslunaráhöldum og innréttingum, er hann keypti á árinu 1977. Skattstjóri hafði talið að um kaup á „goodwill“ hefði verið að ræða og felldi gjaldfærða fyrningu niður. Fyrningarverð eigna þessara var 8 000 000 kr. og reiknaði kærandi fyrningu miðað við gildistíma leigusamnings um verslunarhúsnæðið, sem var 39 mánuðir, eða 30,7692% af 8 000 000 kr. í 3 mánuði, er nam 615 384 kr. Umræddur leigusamningur, er dags. .1. október 1977 og er leigutími frá þeim degi til 1. janúar 1981. Samkvæmt ákvæðum samningsins ber leigutaka að annast standsetningu húsnæðisins og að leigutíma loknum verður allt múr- og naglfast eign leigusala. Ákvæði er um forleigurétt til handa leigutaka.
Í ofangreindum úrskurði ríkisskattanefndar er fallist á kröfu kæranda þar sem umræddur fyrningarfrádráttur væri innan lögleyfðra marka. Þegar virt eru gögn málsins, þ.á m. nefndur leigusamningur, þykir fyrningu eigna þeirra, er hér um ræðir, bera að haga í samræmi við almennar reglur, sbr. 2. tl. 1. mgr. C-liðs og l. mgr. D-liðs 15. gr. laga nr. 68/1971, með síðari breytingum, enda þykir hvorki liggja fyrir, að notkunartími kæranda á hinum fyrndu eignum sé aðeins bundinn við 39 mánuði né að eignir þessar séu honum verðlausar að leigutíma loknum. Eftir þessu ákveðst fyrning 1 160 000 kr.