Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 775/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 11. gr.  

Embættiskostnaður — Sóknarprestur

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem er starfandi sóknarprestur, færði til lækkunar á framtöldum tekjum kostnað vegna skrifstofuhalds að fjárhæð 104 000 kr. Skattstjóri felldi frádráttarlið þennan niður. í kæru til skattstjóra, dags. 20. ágúst 1979, mótmælti kærandi þessari útstrikun skattstjóra. Bar kærandi fyrir sig, að prestar hefðu skrifstofu í heimahúsum, þar sem engin önnur opinber aðstaða væri fyrir hendi. Væri því hluti kostnaðar vegna upphitunar, rafmagns, hreinlætisvara o.þ.h. í beinum tengslum við slíkt skrifstofuhald, auk þess sem óhjákvæmilegt væri, að starfinu fylgdi óvenjulega mikil risna. Endurgreiðslur ríkisins kvað kærandi fyrst og fremst vegna bifreiðar- og símakostnaðar. Í úrskurði sínum, dags. 30. október 1979, vísaði skattstjóri til þess, að samkvæmt sundurliðun á launamiða hefði kærandi fengið greitt fyrir bílaafnot 201 750 kr., vegna símakostnaðar 19 695 kr. og sem embættiskostnað presta 179 258 kr. Þessar fjárhæðir hefði kærandi fengið til frádráttar tekjum og yrði ekki um frekari frádrátt að ræða.

Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 19. nóvember 1979, og gerir þar svofellda grein fyrir kröfum sínum:

„Við gerð framtals séra N. N. 1979 var farið fram á frádrátt 104 000 kr. vegna skrifstofuhalds o.fl., en N. N. er með skrifstofu á heimili sínu og verður óhjákvæmilega sem prestur í dreifbýli að taka á móti sóknarbörnum sínum sem sum eru komin nokkuð langan veg og eins gefur að skilja kallar það á verulegan kostnað vegna risnu. Þessi umbeðni frádráttur 104 000 kr. átti því að ná yfir risnu, hreinlætisvörur vegna þrifa á skrifstofu og 15% rafmagns- og upphitunarkostnað íbúðarhúss hans.

Skattstjóri synjaði þessari beiðni alfarið á þeirri forsendu að þessir liðir væru innifaldir í greiðslum embættiskostnaðar presta, ég leyfi mér að mótmæla þessari túlkun skattstofunnar og vísa til þess að vitað er að aðrar skattstofur munu hafa heimilað prestum frádrátt sem nemur 15% rafmagns- og hitunarkostnaðar heimila þeirra, án tillits til áður greinds embættiskostnaðar og hljóta því prestar í þessu umdæmi að njóta sömu réttinda.

Samkvæmt ofanrituðu leyfi ég mér að fara fram á við háttvirta Ríkisskattanefnd að hún leyfi umbeðinn frádrátt 104 000 kr. og að álögð gjöld 1979 á séra N. N. verði lækkuð til samræmis við það.“

Að hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 27. október 1980:

„Svo virðist sem lagastoð skorti til hins umkrafða frádráttar. Með vísun til þess er krafist staðfestingar á álagningu opinberra gjalda.“

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi fengið endurgreiðslu á ýmsum þeim kostnaði, sem hann er talinn hafa af embættisrekstri og fengið til frádráttar tekjum fjárhæðir jafnháar þeim greiðslum. Svo sem gögn málsins liggja fyrir þykir kærandi eigi hafa sýnt fram á, að honum beri frekari frádráttur vegna embættisrekstrar síns.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja