Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 800/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 11. gr., 12. gr., 37. gr.  

Atvinnurekstur — Rekstrarkostnaður — Viðhaldskostnaður — Vaxtagjöld — Afföll — Fræðibókakaup — Málsmeðferð áfátt

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 17. júlí 1979, tilkynnti skattstjóri kæranda um eftirgreindar breytingar á skattframtali hans árið 1979:

„Eftirtaldir gjaldaliðir leyfast ekki til gjalda þar sem þeir eru ekki frádráttarbærir frá tekjum samkvæmt 11. grein skattalaga:

Af rekstrarreikningi: kr.

Bókhald ................................................................................................... 55 000

Skóla- og skráningargjöld ...................................................................... 12816

Bækur og ritföng .................................................................................... 26 668

Vottorð .................................................................................................... 1800

Æfingakostnaður ................................................................................... 54 000

Ritföng, pappír, ávísanahefti................................................................ 25 222

Viðhald áhalda (eign vinnuveitanda) .................................................... 76 300

Fagbækur og tímarit ............................................................................ 41 000

Vextir af rekstrarskuldum ...................................................................... 762 771

Bifreiðakostnaður ................................................................................... 221 410

Ferðakostnaður vegna atvinnu ............................................................. 301 460

Afskriftir áhalda (eign vinnuveitanda) .................................................... 65 943

Af framtali:

Offærð fasteignagjöld............................................................................... 60 322

Fagbækur eiginkonu .............................................. ................................... 41 000

Af kostnaði við ný gólfteppi er ekki leyfður til frádráttar 121 354 kr. Félagsgjald húsfélags ... 1 500 kr.“

Þá sendi skattstjóri kæranda svofellt bréf, dags. 27. júlí 1979, eða degi eftir útkomu skattskrár árið 1979:

„1) Leggið fram gögn frá sérhverjum lánardrottna yðar til staðfestingar á framtöldum skuldum.

2) Leggið fram kvittanir fyrir vaxtagreiðslum þeim er þér færið til frádráttar á skattframtal og rekstursreikningi „er fylgir því.“

3) Með tilvísun til 37. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt er hér með skorað á yður að leggja fram nótur til sönnunar viðhaldskostnaði, tilgreindum í framtali yðar 1979.

Ennfremur þurfið þér að leggja fram ítarlega skriflega greinargerð um þennan kostnað þar sem fram þarf að koma hvað gert var og hvers vegna og hverju kostnaður við hvern þátt viðhalds nam.

Skriflegt svar og umbeðin gögn þurfa að berast skattstofunni innan 10 daga frá dagsetningu þessa bréfs.“

Með bráðabirgðakæru, dags. 9. ágúst 1979, kærði umboðsmaður kæranda álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1979. Í framhaldi af kæru þessari barst greinargerð kæranda, dags. 14. ágúst 1979. Í því bréfi voru jafnframt svör við hinum umspurðu atriðum, er getur í bréfi skattstjóra frá 27. júlí 1979 og fylgdu því og umbeðin gögn. Gerði kærandi grein fyrir skuldum, skuldareigendum og vaxtagjöldum. Þá skýrði kærandi tilfærðan viðhaldskostnað og lagði fram gögn. Þá mótmælti kærandi breytingum þeim, er greinir í bréfi skattstjóra frá 17. júlí 1979. Ber kærandi fyrir sig, að starf hans sem framreiðslumaður sé sjálfstæð starfsemi verktaka og hafi framreiðslunema og aðstoðarfólk í vinnu. Eina frávikið væri, að hótel það, er kærandi starfar við, gæfi þjónustugjöld upp sem laun og tæki að sér greiðslu launaskatts og launatengdra gjalda. Þá gerði kærandi grein fyrir einstökum atriðum, er breytingum höfðu sætt. Krafðist hann þess, að álagningunni yrði breytt í samræmi við framtal og rekstrarreikning.

Með úrskurði, dags. 10. október 1979, taldi skattstjóri með tilliti til samnings milli Félags framreiðslumanna og Sambands veitinga- og gistihúsaeigenda, að eigi væri unnt að gjaldfæra kostnað á móti tekjum kæranda er væru launatekjur, utan lögboðinn kostnað vegna nema að hálfu 95 284 kr. Þá taldi skattstjóri fræðibókafrádrátt ekki studdan fullnægjandi gögnum samkvæmt E-lið 12. gr. skattalaga. Þá hefðu samkvæmt gögnum málsins verið keypt teppi á íbúð kæranda 1975 og væru því ekki efni til breytinga á fyrri ákvörðun að því er þetta varðar. Ekki hefðu boðuð gögn borist varðandi frádráttarbær fasteignagjöld.

Með bráðabirgðakæru, dags. 30. október 1979, skaut umboðsmaður kæranda úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Greinargerð kæranda barst þann 14. janúar 1980. Ítrekar kærandi fyrri kröfur um að byggt verði á framtalinu óbreyttu og gerir grein fyrir einstökum liðum, sem um er deilt.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 3. nóvember 1980

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur, enda virðist mat hans á ófrádráttarbærum hluta hins umdeilda kostnaðar hóflegt með hliðsjón af atvikum málsins.“

Svo sem starfssambandi kæranda og vinnuveitanda hans er háttað er á það fallist með skattstjóra, að tekjur hans beri að telja launatekjur og til frádráttar þeim tekjum komi því einungis launagreiðslur til nema og aðstoðarfólks svo og kostnaður sá, er sannarlega er inntur af hendi samkvæmt ákvæðum kjarasamnings þar um. Eftir þessari niðurstöðu er úrskurður skattstjóra staðfestur að því er snertir gjaldfærðan ferðakostnað vegna atvinnu, bifreiðakostnað, viðhaldskostnað áhalda og afskriftir þeirra, svo og bókhalds- og ritfangakostnað. Að því er varðar frádrátt vegna fræðibókakaupa kæranda og eiginkonu hans þykir bera að fallast á kröfu kæranda að því er það varðar með því að skattstjóri gætti þess eigi að leita upplýsinga kæranda og eftir atvikum gagna um liði þessa, áður en hann ákvað að fella þá brott. Þá verður fallist á kröfur kæranda varðandi viðhaldskostnað íbúðarhúsnæðis kæranda, sem fyrst er felldur brott með tilkynningu skattstjóra frá 17. júlí 1979, en síðan er með bréfi, dags. 27. júlí 1979, skorað á kæranda að leggja fram gögn kostnaði þessum til sönnunar. Þvílík málsmeðferð fær eigi staðist. Ágreiningi um frádrátt vegna fasteignagjalda þykir bera að vísa frá sökum vanreifunar af hálfu kæranda. Þá þykir bera að leyfa kæranda til frádráttar í frádráttarhlið skattframtals hluta þeirrar fjárhæðar, er kærandi færði sem vaxta-gjöld á rekstrarreikningi, er var 762 771 kr. Hefur eigi verið vefengt að kærandi hafi borið þessi vaxtagjöld. Frá þessari fjárhæð þykir þó bera að draga 330 000 kr., sem er gjaldfærður þriðjungur affalla vegna sölu eigin skuldabréfa, er eigi telst falla undir ákvæði A-liðar 12. gr. skattalaga um frádráttarbær afföll. Frádráttarbær vaxtagjöld samkvæmt þessu og að gerðum leiðréttingum að öðru leyti eru 2 333 618 kr. Þá þykir bera að leiðrétta frádráttarbær opinber gjöld til hækkunar um 73 472 kr., m.a. vegna vanáætlunar á skattframtali 1978.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja