Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 409/1992
Gjaldár 1987-1988
Lög nr. 73/1980 — 36. gr. Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 5. tl. — 4. gr. 5. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 100. gr. 1. mgr.
Atvinnurekstur — Verslun — Lögaðili — Félag — Skattskylda félags — Skattfrjáls lögaðili — Lögaðili, skattfrjáls — Skattfrelsi — Almenningsheill — Menningarmálastarfsemi — Framtalsskylda — Kærufrestur — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra — Endurupptaka máls — Endurupptaka úrskurðar ríkisskattanefndar — Endurupptökuheimild ríkisskattanefndar — Sönnun — Frávísun — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Vanreifun — Frávísun vegna vanreifunar — Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsskylda
Óskað er eftir endurupptöku á frávísunarúrskurði ríkisskattanefndar nr. 795, dags. 30. desember 1988, vegna gjaldársins 1987. Jafnframt er kærð álagning opinberra gjalda gjaldárið 1988.
Bréf kæranda til ríkisskattanefndar, dags. 11. janúar 1990, er svohljóðandi:
„Málavextir eru í stuttu máli þeir að kært var 6. jan. ’88 til Ríkisskattanefndar fyrir hönd X vegna álagningar opinberra gjalda fyrir árið ’87. Þessari kæru var af hálfu Ríkisskattanefndar vísað frá „að svo stöddu“ með úrskurði 30. des. ’88 vegna þess að af hálfu kæranda hafði eigi verið gerð grein fyrir því á hverju krafan var byggð.
Síðan þessi úrskurður féll hefur liðið langur tími og álagning fyrir árið ’88, að upphæð 64.512,00, séð dagsins ljós og öll gjaldfallið. Vegna langvarandi veikinda og síðar fráfalls fyrrverandi gjaldkera félagsins, A, á síðastliðnu hausti, hefur dregist úr hömlu að félagið gerði skýra grein fyrir máli sínu. Ég undirritaður, formaður félagsins, ætla hérmeð að freista þess að taka upp þráðinn og reifa málið að nýju.
Fyrst vil ég ítreka fyrrnefnda kæru út af álagningu fyrir árið ’87 og jafnframt kæra hérmeð álagningu fyrir árið ’88.
Eftirfarandi forsendur færi ég fyrir báðum kærum þessum:
Í fyrsta lagi eru X menningar- og velferðarhreyfing, sem hefur ætíð varið öllum sínum hagnaði til almenningsheilla. Sem dæmi um starfsemi hennar má nefna, ókeypis kennslu fyrir fleiri hundruð manns í andlegri og þjóðfélagslegri heimspeki og sjálfsþroskaaðferðum, -skipulagt fjöldan allan af fyrirlestrum um andleg og þjóðfélagsleg efni á liðnum árum og kostað til þess ferðir og uppihald fjölmargra erlendra fyrirlesara, – kostað húsnæði fyrir pöntunarfélag og haft yfirumsjón með rekstri þess, – haldið uppi miðstöð þar sem fólki hefur verið veitt ókeypis fræðsla og aðstaða til að iðka alhliða jóga og aðrar sjálfsþroskaaðferðir sér til heilsubótar og andlegrar upplyftingar. Allt starf félagsins frá byrjun undirstrikar að það er menningar og velferðarsamtök sem ver hagnaði sínum eingöngu til almenningsheilla eins og jafnframt er kveðið á um í samþykktum þess. X falla því ótvírætt undir þá lagagrein sem kveður á um það að félög sem eingöngu verja hagnaði sínum til almenningsheilla skuli undanþegin sköttum og fylgir hérmeð afrit af lagagrein þessari. Geri ég því þá kröfu fyrir hönd félagsins að álögðum tekjuskatti og aðstöðugjöldum sé aflétt af félaginu fyrir gjaldárin ’87 og ’88.
Í öðru lagi má bæta því við að skattayfirvöld viðurkenndu ætíð að félagið væri undanþegið ofangreindum sköttum allt frá stofnun þess árið ’83 fram til ársins ’86 að skattayfirvöld reyndu að leggja skatta á félagið. Skattstjóri Reykjavíkur viðurkenndi þó síðar að ekki bæri að skattleggja félagið og leiðrétti álagninguna eins og sést af meðfylgjandi pappírum. Með því að reyna fyrirvaralaust að skattleggja félagið fyrir árin ’87 og ’88 er verið að vega aftan að því og leggja starf þess í rúst. Ef álagningin er aðallega tilkomin eða ekki leiðrétt vegna formsgalla af okkar hálfu erum við allir að vilja gerðir að leiðrétta hann eftir ykkar tilvísan.
Félagið liggur nú undir stöðugum hótunum Bæjarfógetans í Y um lögtak ef téðar álögur séu ekki greiddar hið fyrsta. Ég vænti þessvegna jákvæðs og skjóts úrskurðar af hálfu skattanefndar í máli þessu.“
Með bréfi, dags. 12. júlí 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Varðandi lið a): Í nefndum úrskurði var kæru ofangreinds aðila vísað frá ríkisskattanefnd vegna vanreifunar. Nú hefur verið bætt úr því með bréfi sem barst nefndinni þann 30. janúar 1990. Eigi þykja vera fyrir hendi neinar ástæður fyrir endurupptöku nefnds úrskurðar og er þess krafist að framkominni beiðni verði synjað.
Að því er varðar lið b) er þess krafist að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin en lögmæltur 30 daga kærufrestur skv. 1. mgr. 100 gr. laga nr. 75/1981 rann út þann 30. mars 1989. Kærubréf kæranda barst ríkisskattanefnd hinsvegar ekki fyrr en 30. janúar 1990. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að honum hafi ekki verið unnt að kæra innan þess frests.“
Bréf kæranda, dags. 11. janúar 1990, varðar annarsvegar beiðni um endurupptöku á úrskurði ríkisskattanefndar nr. 795, 30. desember 1988 vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1987 og hinsvegar kæru vegna úrskurðar skattstjóra, dags. 28. febrúar 1989, út af álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988. Með nefndum úrskurði ríkisskattanefndar var kæru kæranda, dags. 6. janúar 1988, vísað frá vegna vanreifunar, þar sem ekki kom fram á hverju krafa hans um niðurfellingu opinberra gjalda gjaldárið 1987 væri byggð. Kærandi hefur nú gert grein fyrir starfsemi sinni og lagt fram samþykktir, sínar, dags. 23. nóvember 1986, svo og nýjar samþykktir, dags. 30. desember 1989. Í ljósi framlagðra gagna og skýringa kæranda er fallist á endurupptöku úrskurðar nr. 795 frá 30. desember 1988. Skv. málsgögnum hefur kærandi m.a. haft verslunarstarfsemi með höndum árið 1986. Þegar litið er til samþykkta kæranda og þeirra skýringa, sem fram hafa komið af hans hálfu á starfsemi hans og tilganginum með henni, þykir nægilega leitt í ljós af hálfu kæranda, að hann sé undanþeginn skattskyldu samkvæmt 5. tl. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er álagður tekjuskattur gjaldárið 1987 því felldur niður, en önnur gjöld standi óbreytt. Að því er varðar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 þá þykir bera að vísa kærunni frá sem of seint framkominni, sbr. það, sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra.