Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 589/1979
Gjaldár 1978
Lög nr. 68/1971, 1. gr.
Skattskylda - Lögheimili - Námsmenn
Mótmælt var þeim úrskurði skattstjóra að skattleggja kæranda hlutfallslega miðað við dvalartíma hér á landi á árinu 1977. Kærandi kvaðst hafa farið til náms í Noregi og ætti því rétt á því að telja lögheimili sitt hér á landi, meðan á námi stæði. Var krafist skattlagningar á þessum grundvelli.
Af hálfu ríkisskattstjóra var krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra, enda yrði ekki annað ráðið af gögnum málsins en kærandi hefði tekið upp lögheimili í Noregi og hefði svo verið, er hann gekk í hjónaband og hóf nám.
Ríkisskattanefnd féllst á kröfu kæranda með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 35/1960, um lögheimili og bréfs Fjármálaráðuneytisins, dags. 23. mars 1973 svohljóðandi:
„Ráðuneytið hefur ákveðið, að ákvæði laga nr. 22/1956, um skatt- og útsvarsgreiðslur útlendinga og fleiri gjaldenda, skuli eigi ná til námsmanna, sem eru íslenskir ríkisborgarar, þótt þeir hafi slitið lögheimili sínu hér á landi, meðan á námi stendur, enda telji þeir fram og hlíti skattalegri meðferð sem heimilisfastir hér á landi.
Ákvörðun þessi er tekin skv. heimild í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 22/1956.“