Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 646/1979

Gjaldár 1977

Lög nr. 68/1971, 1. gr.  

Skattskylda - Lögheimili - Gjaldársálagning

Málavextir voru þeir, að eiginkona kæranda hóf nám í Osló í lok ágústmánaðar 1976. Fóru hjónin af landi brott þann 1. ágúst 1976 í sumarleyfisferð um Evrópu þar til skólanámið hæfist. Þann 13. desember 1976 var kæranda veitt atvinnuleyfi í Noregi. Samkvæmt vottorði Hagstofu íslands, dags. þann 20. desember 1978, er fyrir lá í málinu, fluttu kærandi og eiginkona hans til Noregs þann 27. ágúst 1976. Skattstjóri gerði kæranda að greiða gjaldársgjöld árið 1976. Við útreikning gjaldársgjalda lagði skattstjóri til grundvallar 30 dvalarvikur hér á landi, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1956 og miðaði við upplýsingar Hagstofu Íslands, er þá kvað brottfarardag hafa verið þann 1. ágúst 1976.

Af hálfu ríkisskattstjóra var þess aðallega krafist, að kærunni yrði vísað frá sökum ágalla á kæru, en til vara, að ákvörðun skattstjóra yrði staðfest. Þá lagði ríkisskattstjóri fram kæru í málinu á grundvelli 2. mgr. 41. gr. laga nr. 68/1971 þess efnis, að þeirri ákvörðun skattstjóra að heimila frádrátt vegna náms eiginkonu erlendis yrði hnekkt, enda yrði ekki talið, að skattaðilar ættu rétt á slíkum frádrætti, þegar þannig stæði á, að þeir hefðu slitið lögheimili hér á landi, áður en nám erlendis hæfist. Samkvæmt þessu var þess krafist að gjaldárstekjuskattur yrði hækkaður.

Kærandi krafðist þess, að frávísunarkröfu yrði hrundið og kæran yrði tekin til efnismeðferðar. Efnislega gerði kærandi þá kröfu aðallega, að honum yrði ekki gert að greiða gjaldársgjöld, heldur yrði á hann lagt með venjulegum hætti sem hérlendis búsettan pr. 1.12. 1976. Til vara gerði kærandi þær kröfur, að kröfu ríkisskattstjóra um niðurfellingu námsfrádráttar vegna náms eiginkonu í Noregi yrði hafnað, að miðað yrði við 35 dvalarvikur hér á landi í stað 30 og tekjur eiginkonu yrðu ekki umreiknaðar, þar sem hún hefði hafið nám og hefði ekki haft möguleika á tekjum og að miðað yrði við skattvísitölu brottfarardags þann 27.8. 1976 í stað skattvísitölu fyrra árs.

Til stuðnings aðalkröfu sinni benti kærandi á, að nokkrum dögum fyrir brottför hefðu þau hjónin flutt lögheimili sitt frá H-götu í Reykjavík, að S-bakka í Reykjavík. Fengið hefði verið samnorrænt flutningsvottorð, svo sem skylt væri, en þess hefði verið óskað, að lögheimili skyldi vera áfram á Íslandi. Virtist Hagstofa Íslands hafa flutt lögheimilið til Noregs strax án kröfu frá norskum yfirvöldum. Venja væri, að norsk yfirvöld færu fram á flutning lögheimilis, ef um atvinnu væri að ræða. Vísaði kærandi til þess, að honum hefði ekki verið veitt atvinnuleyfi, fyrr en þann 13.12. 1976, svo sem fram lögð gögn sýndu og hefðu því norsk yfirvöld ekki krafist lögheimilisflutnings, fyrr en eftir þann tíma. Mætti því ljóst vera, að lögheimilið hefði átt að vera hér á landi til þess tíma og skattlagning því átt að miðast við búsetu á Íslandi pr. 1.12. 1976.

Varðandi varakröfu vísaði kærandi til framkomins vottorðs Hagstofu Íslands, dags. 20.12. 1978.

Ríkisskattanefnd hafnaði frávísunarkröfu ríkisskattstjóra.

Efnislega komst ríkisskattanefnd að þeirri niðurstöðu, að með hliðsjón af öllum gögnum málsins mætti á því byggja, að kæranda hefði ekki borið að bregða lögheimili sínu hér á landi fyrir 1.12. 1976. Var því aðalkrafa hans tekin til greina, um að skattlagning gjaldárið 1977 færi fram svo sem kærandi hefði verið búsettur hérlendis þann 1.12. 1976. Í samræmi við þessa niðurstöðu var og kæru ríkisskattstjóra synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja