Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 604/1979
Gjaldár 1978
Lög nr. 68/1971, 2.gr., 7.gr.
Takmörkuð skattskylda
Málavextir voru þeir, að kærandi og eiginkona hans voru búsett í Svíþjóð og áttu þar lögheimili. Eiginkonan átti íbúð hér á landi. Skattstjóri lagði á kæranda tekjuskatt, útsvar og sjúkratryggingagjald vegna þessarar eignar með vísan til 2. gr. laga nr. 68/1971. Með því að íbúðin hefði ekki verið leigð gegn eðlilegu endurgjaldi reiknaði skattstjóri tekjur af henni 1,1% af fasteignamatsverði, sbr. C-lið 1. mgr. 7. gr. skattalaga. Kærandi krafðist þess, að álögð gjöld yrðu felld niður.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:
„Skattstjóri hefur ákvarðað tekjur með hliðsjón af reiknaðri eigin húsaleigu og fyrningu af fasteign sbr. C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Álagning skattstjóra er ákvörðuð í samræmi við þetta og eru ekki efni til að breyta þeirri álagningu.“
Staðfesti ríkisskattanefnd úrskurð skattstjóra.