Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 4/1979

Gjaldár 1977

Lög nr. 68/1971, 5. gr.  

Skattskylda félaga/Lögjöfnun. Almenningsheill/Sjálfseignarstofnun

Málavextir voru þeir, að gjaldárið 1977 áætlaði skattstjóri Náttúrulækningafélagi Íslands gjaldstofna til álagningar tekjuskatts og eignarskatts svo og aðstöðugjalds, þar sem félagið taldi ekki fram til skatts það ár. Kærandi undi ekki þessum álögum og krafðist niðurfellingar á þeim.

Í málinu lágu fyrir ársreikningar kæranda fyrir árin 1975 og 1976, endurskoðaðir og áritaðir af löggiltum endurskoðanda. Af þeim var ljóst, að rekstur heilsuhælisins í Hveragerði var meginstarfsemi kæranda, er þó hafði með höndum fleiri verkefni. Þessu lýsti umboðsmaður kæranda svo í bréfi til ríkisskattanefndar:

„Heilsuhælið er sjúkrastofnun, sem veitir sjúklingum alhliða sjúkraþjónustu m.a. á sviði gigtar og hrörnunarsjúkdóma, með nuddi, böðum, réttu fæðisvali, læknishjálp, sjúkraþjálfun o.fl. Einnig er mikið um að sjúklingar dvelji þar eftir sjúkrahúsvist á öðrum sjúkrastofnunum. Sjúklingar dvelja einungis á Heilsuhælinu eftir tilvísun frá læknum. Allur rekstrarkostnaður Heilsuhælisins er greiddur af heilbrigðiskerfinu í landinu og daggjöld ákveðin af Daggjaldanefnd sjúkrahúsa sem starfar á vegum Heilbrigðisráðuneytisins. Má segja að þangað sé starfsemisgrundvöllur Heilsuhælisins sóttur. Hluti sjúklinga í daggjaldi var einnig háður samþykki Daggjaldanefndar.“

---

„Varðandi bókhaldslega uppbyggingu þá er N.L.F.Í. eignaraðili að öllum þáttum starfseminnar. Starfseminni er síðan skipt niður í deildar til að fá sem best yfirlit yfir hvern þátt. Án undantekninga þá þjóna allar rekstrardeildir á einn eða annan hátt Heilsuhælinu og eflingu þeirra kenninga sem fram koma í lögum N.L.F.Í. 3. gr.“

Í málinu lágu fyrir lög Náttúrulækningafélags Íslands. Kom fram í þeim, að öll náttúrulækninga- og heilsuverndarfélög í landinu gætu orðið aðilar að bandalaginu, enda væru lög félaganna í samræmi við lög bandalagsins og samþykkt af stjórn þess. Félagsmenn í bandalagsfélögunum gætu allir orðið eldri sem yngri. Þá eru í úrskurði ríkisskattanefndar 2. og 3. gr. laga samtakanna orðrétt greindar. Fjalla greinar þessar um tilgang samtakanna og hversu þau hyggist ná honum.

Ríkisskattstjóri gerði þá aðalkröfu í málinu, að kærandi yrði krafinn um skattframtöl árin 1976 og 1977 ásamt lögboðnum fylgiskjölum og opinber gjöld yrðu ákveðin í samræmi við þau svo sem lög stæðu til. Til vara var þess krafist, að áætlun skattstjóra á gjaldstofnum gjaldárin 1976 og 1977 yrði hækkuð verulega og til þrautavara, að úrskurðir skattstjóra yrðu staðfestir. Taldi ríkisskattstjóri að hvorki væri kærandi sjálfur né starfsemi sú, er hann ræki undanþegin skattskyldu eftir sérstökum lögum og þar sem 6. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, þætti ekki geta tekið til hans, væri kærandi skattskyldur eftir ákvæðum E-liðar 5. gr. greindra laga af allri starfsemi sinni. Bæri honum því skv. ákvæðum 35. gr. laga nr. 68/1971 að semja og skila skattframtölum árin 1976 og 1977.

Varðandi þá kröfu ríkisskattstjóra að ákvörðuð yrðu opinber gjöld kæranda gjaldárið 1976 segir svo í úrskurði ríkisskattanefndar:

„Í málinu er einungis til úrskurðar kæra gjaldþegnsins frá 15. sept. 1977. Kröfu ríkisskattstjóra um ákvörðun skatta fyrir gjaldárið 1976 er vísað frá, enda kærufrestur út af þeim löngu liðinn, er ríkisskattanefnd barst umsögn hans dags. 3. okt. 1978.“

Um skattskyldu kæranda varð niðurstaða ríkisskattanefndar þessi:

„Fallist er á, að kærandi sé aðili, sem um skattskyldu falli undir E-lið 5. gr. laga nr. 68/1971. Á hitt er svo að líta að eftir tilvitnuðum félagslögum kæranda miðar tilgangur starfsemi hans alfarið að almenningsheill. Má fallast á, að hann sé nægilega afmarkaður í félagslögum. Hvorki framlögð gögn í málinu af hendi kæranda né heldur hafa álagningaryfirvöld sýnt fram á, að kærandi hafi farið út fyrir þann vettvang, sem starfsemi hans er markaður í félagslögum, svo máli skipti. Þykja ekki rök til að því er álagningu tekjuskatts og eignarskatts varðar, að hann sé verr settur en félög þau, sem 2. ml. A-liðar 5. gr. laga nr. 68/1971 tekur til. Þykir því með lögjöfnun frá þessu ákvæði bera að fella niður hinn umdeilda tekjuskatt og eignarskatt.“

Á hinn bóginn taldi ríkisskattanefnd að undanþáguákvæði 36. gr. laga nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga, tækju ekki til kæranda nema að hluta til og ákvað honum aðstöðugjald í samræmi við það.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja