Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 581/1979
Gjaldár 1978
Lög nr. 68/1971, 5. gr.
Skattskylda - Sameignarfélag - Hjón
Kærandi, sem var sameignarfélag, taldi ekki fram til skatts á réttum tíma gjaldárið 1978. Skattstjóri áætlaði honum því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda það gjaldár. Í framhaldi af bráðabirgðakæru til skattstjóra, dags. 9. ágúst 1978, barst skattstjóra þann 7. september 1978 skattframtal kæranda fyrir árið 1978, en þann 4. september 1978 hafði skattstjóri með úrskurði synjað kröfu kæranda með því að rökstuðningur hefði eigi borist. Framsendi skattstjóri ríkisskattanefnd framtal kæranda með bréfi, dags. 12. september 1978.
Með bréfi til ríkisskattstjóra, mótt. þann 7. september 1978, fór umboðsmaður kæranda þess á leit, að innsend framtöl kæranda fyrir gjaldárin 1976 og 1977 yrðu lögð til grundvallar álagningu í stað áætlunar skattstjóra. Með úrskurði dags. 18. apríl 1979, felldi ríkisskattstjóri niður álögð gjöld gjaldár þessi á kæranda og sameinaði innsend framtöl framtölum félagsaðila að kæranda, V. og eiginkonu hans K. með sérstökum úrskurðum, dags. sama dag. Voru forsendur ríkisskattstjóra þær, að samkvæmt innsendum framtölum væru eigendur kæranda nefnd hjón og væru því ekki uppfyllt skilyrði C-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 68/1971 til þess, að sameignarfélagið gæti verið sjálfstæður skattþegn.
Með bréfi, dags. 19. júní 1979, til ríkisskattstjóra, fór umboðsmaður kæranda þess á leit með tilvísun til fyrrnefnds úrskurðar í máli kæranda frá 18. apríl 1979, að álögð gjöld gjaldárið 1978 að fjárhæð kr. 720.920 yrðu einnig niður felld.
Í málinu féllst ríkisskattstjóri á, að gjaldstofnar samkvæmt innsendu skattframtali kæranda yrðu færðir inn á skattframtöl eigenda að kæranda V. og eiginkonu hans K.
Ríkisskattanefnd taldi bera að fella niður álögð, opinber gjöld á kæranda gjaldárið 1978 með vísan til C-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 68/1971 og fara með skattlagningu í þessu tilviki eftir ákvæðum 2. mgr. C-liðar 1. mgr. 5. gr. laganna. Var í því efni fallist á að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu að viðbættum 25% viðurlögum. Í sérstökum úrskurði var fjallað um skattlagningu vegna kæranda hjá félagsaðilum sameignarfélagsins. (Sjá og um álitaefni það, er í máli þessu greinir, Hrd. 1974 bls. 648).