Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 555/1979

Lög nr. 68/1971, 5. gr.  

Skattskylda - Sameignarfélag

Tildrög málsins voru þau, að skattstjóri ritaði kæranda bréf þann 22. júní 1978, þar sem tekið var fram, að á árinu 1977 hefði sameignarfélagið S yfirtekið rekstur kæranda og tilgreinds aðila. Væri dagsetning tilkynningar um stofnun félagsins sem sjálfstæðs skattaðila 5. maí 1977. Fram til þess tíma, er tilkynnt hefði verið um stofnun félagsins hvíldi framtals- og skattskylda vegna rekstursins á kæranda og hinum tilgreinda aðila. Var þess krafist, að kærandi legði fram rekstrarreikning fyrir tímabilið 1.1.-5.5. 1977 og lokareikning.

Með því að ekki var gerð grein fyrir rekstrinum á skattframtali kæranda og þar eð líta yrði svo á, að framtalsskylda vegna starfsemi þeirrar, er S s.f. yfirtók, hefði hvílt á kæranda hluta ársins 1977, áætlaði skattstjóri kæranda tekjuviðbót að fjárhæð kr. 300.000, enda hefðu engin gögn, svo sem dagsettur stofnsamningur, verið lögð fram til stuðnings fullyrðingu kæranda um að rekstur sameignarfélagsins hefði byrjað í ársbyrjun 1977.

Af hálfu kæranda var því mótmælt, að sameignarfélagið hefði ekki tekið til starfa, fyrr en við dagsetningu tilkynningar. Sameiginlegur rekstur kæranda og sameiganda hans hefði hafist síðari hluta ársins 1975 og hefðu fjárreiður þá orðið sameiginlegar. Hefði þeim orðið ljóst er á leið, að óhagræði væri að hafa reksturinn ekki í félagsformi og hefðu því ákveðið fyrir árslok 1976 að stofna sameignarfélagið S s.f., er hæfi rekstur 1. janúar 1977.

Ríkisskattanefnd komst að svofelldri niðurstöðu í málinu:

„Enda þótt kæranda og samstarfsaðila hans kunni að hafa verið heimilt að semja svo um, að nýr lögaðili, S s.f., yfirtæki rekstur þeirra frá og með 1. janúar 1977, breytir slíkt samningsákvæði engu að því er skattaðild varðar. Á sameignarfélög verður eigi lagður skattur sem sjálfstæða skattþegna nema að uppfylltum skilyrðum C-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á, að umrætt sameignarfélag hafi uppfyllt skilyrði tilvitnaðrar lagagreinar til að vera sjálfstæður skattaðili frá og með 1. janúar 1977. Hins vegar þykir með tilliti til ársreiknings S s.f. 1977 ekki tilefni til að ákveða kæranda hinn umdeilda tekjuauka. Með tilliti til þess, að S s.f. hefur verið gert að greiða launaskatt og launatengd gjöld vegna starfa kæranda allt árið 1977 þykir mega fella álagðan launaskatt kr. 35.604 og slysatryggingariðgjald kr. 2.952 niður.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja