Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 411/1992
Gjaldár 1990
Lög nr. 75/1981 — 95. gr. 2. mgr. — 96. gr. 1. og 3. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. og 4. ml.
Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal tekið sem kæra — Skattframtal, vefenging — Skattframtal, höfnun — Skattframtal í stað áætlunar —Skattframtal, tortryggilegt — Framfærslueyrir — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt — Forsendur skattstjóra — Rangar forsendur skattstjóra — Fyrirspurnarskylda skattstjóra — Breytingarheimild skattstjóra — Andmælareglan — Sönnun
Málsatvik eru þau, að skattstjóri tók síðbúið skattframtal kærenda árið 1990 sem kæru eftir ákvæðum 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með úrskurði, dags. 10. janúar 1991, féllst skattstjóri ekki á að leggja framtalið til grundvallar nýrri álagningu gjalda í stað áætlunar áður með því að hann leit svo á að framtalið væri ótækt til slíkrar álagningar vegna efnislegra og formlegra annmarka sem böguðu það. Skipti í því sambandi mestu máli, að þegar tekið hafi verið tillit til eignabreytinga milli ára og framtalinna tekna hafði fjölskylda kærenda ekki haft neitt til að standa straum af lífsviðurværi sínu.
Af hálfu kærenda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 8. febrúar 1991. Er þess krafist, að úrskurði skattstjóra verði hnekkt og skattframtal kærenda verði óbreytt lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1990. Er svofelld grein gerð fyrir þessari kröfu:
„Umbjóðandi minn gleymdi að færa á framtal sitt skuld skv. víxli pr. 15/1 1990 kr. 155.000.- við X hf. Jafnframt því að ekki var getið um sölu Kjarabréfa sem hann hafði keypt undanfarin ár og seldi á árinu 1989 á móti byggingarkostnaði. Um var að ræða bréf að söluverðmæti samtals kr. 852.850.-. Hjálagt fylgir afrit af yfirliti Fjárfestingarfélagsins hf., svo og afrit af framlengingarkvittun víxils frá Iðnaðarbankanum. Þá er mótmælt formgalla á úrskurði skattstjóra, þar sem umbjóðanda mínum var ekki gefinn kostur á að koma að athugasemdum við innsent framtal áður en kærufrestur er gefinn beint til ríkisskattanefndar.“
Með bréfi, dags. 7. júní 1991, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans og þess að umboðsmaður kærenda hefur ekki gert þá grein fyrir tekjum til framfærslu að unnt sé að leggja innsent framtal til grundvallar álagningu. Þrátt fyrir að tekið væri fullt tillit til skýringa með kæru til ríkisskattanefndar um sölu verðbréfa á árinu 1989 fyrir kr. 852.850.- og víxilskuldar að upphæð kr. 155.000.- hafa kærendur skv. innsendu framtali u.þ.b. kr. 400.000.- til framfærslu 6 manna fjölskyldu á árinu 1989 sem hlýtur að teljast það tortryggilegt að hafna verði kröfum kærenda.
Vegna þess sem haldið er fram í kæru um að skattstjóri hafi ekki veitt kærendum tækifæri til þess að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar, skal tekið fram að framtal kærenda barst ekki fyrr en að loknum lögmæltum framtalsfresti og var því tekið sem kæra til skattstjóra, skv. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.“
Á það er fallist með ríkisskattstjóra, að skattstjóri hafi eigi verið bundinn af ákvæðum 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er hann kvað upp hinn kærða úrskurð, enda eiga ákvæði þeirrar lagagreinar efni sínu samkvæmt ekki við, þegar skattstjóra berst skattframtal og það tekið sem kæra samkvæmt ákvæðum 99. gr. nefndra laga. Á hitt er að líta að hinn kærði úrskurður þykir eigi nægilega rökstuddur. Skiptir í því sambandi máli að eigi kemur neitt fram um það hvaða einstakir liðir í framtali kærenda skattstjóri taldi tortryggilega og eigi kemur fram hvernig hann reiknar út hinn meinta lífeyri kærenda. Þannig liggur t.d. fyrir að skattstjóri hafði vefengt skattframtal kærenda árið 1989 og því hæpið að horfa til þess við útreikning á eignabreytingum milli ára, sem var þáttur við mat skattstjóra á lífeyri kærenda á árinu 1989 samkvæmt skattframtali þeirra árið 1990. Þegar framangreint er virt og þegar litið er til framkominna skýringa og gagna af hálfu kærenda þykja hvorki skattstjóri né ríkisskattstjóri hafa sýnt fram á að skattframtal kærenda árið 1990 sé efnislega rangt. Er því fallist á kröfu þeirra í máli þessu.