Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 651/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 5. gr.  

Skattskylda - Samlagsfélag - Málamyndagerningur

Á það reyndi, hvort tiltekið félag uppfyllti skilyrði til þess að geta verið sjálfstæður skattaðili.

Málavextir voru þeir, að skattframtal félagsins barst með kæru til ríkisskattanefndar og þess farið á leit, að það yrði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar skattstjóra. Félagið hafði ekki talið fram á réttum tíma viðkomandi gjaldár.

Af hálfu ríkisskattstjóra var þess krafist, að kærunni yrði vísað frá sem slíkri, en opinber gjöld af gjaldstofnum samkvæmt innsendu framtali félagsins yrðu lögð á X, eiganda félagsins. Taldi ríkisskattstjóri félagið ekki uppfylla þau skilyrði, sem sett væru í C-lið 5. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, til að félög gætu talist sjálfstæðir skattaðilar, enda þótt lagt hafi verið á það sem slíkt undanfarin ár og það sett á framteljendaskrá og skattskrá. Vísaði ríkisskattstjóri til þess, að í tilkynningu til firmaskrár um stofnun félagsins kæmi fram, að X bæri ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins, en samlagsfélagar væru tveir með 50.000 kr. framlag hvor um sig. Þá hefði verið tekið fram í tilkynningunni, að félagið skyldi vera sjálfstæður skattaðili. Af tilkynningunni og gögnum málsins taldi ríkisskattstjóri mega ráða að aðild samlagsfélaganna væri ekki eignaraðild og ábyrgð þeirra ekki ótakmörkuð.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo m.a.:

„Í máli þessu liggur fyrir, að ábyrgð á skuldbindingum kæranda sé þannig háttað, að X beri beina og ótakmarkaða ábyrgð, en tveir aðilar ábyrgjast skuldbindingar félagsins með tiltekinni fjárhæð kr. 50.000 hvor um sig. Er þar um að ræða eiginkonu og föður X að hann upplýsir. Að þessu athuguðu þykir félag þetta bera þann keim af málamyndagerningi, að sú niðurstaða þykir ekki tæk að viðurkenna það sem sjálfstæðan skattaðila.“

Í samræmi við þetta synjaði ríkisskattanefnd kröfu kæranda um að innsent framtal yrði lagt til grundvallar álagningu á kæranda. Jafnframt voru felld niður álögð opinber gjöld á kæranda þetta gjaldár.

Fyrir lá, að ekki var um að ræða skriflegan félagssamning milli aðila. Á hinn bóginn upplýsti X, að samkvæmt munnlegu samkomulagi um „félagsstofnunina“ ættu samlagsfélagar ekki rétt til hlutdeildar í tekjum félagsins. Taldi ríkisskattanefnd því bera að skattleggja hreinar tekjur kæranda á grundvelli innsends framtals með tekjum aðaleiganda kæranda X og hreina eign kæranda með eignum X.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja