Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1111/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 5. gr.  

Skattskylda - Samlagsfélag - Málamyndagerningur

Málavextir voru þeir, að kærandi seldi rekstur sinn samnefndu samlagsfélagi á árinu 1977. Salan skyldi miðast við 1. janúar 1977. Skattstjóri taldi, að framtals- og skattskylda vegna rekstursins fram til þess tíma, er tilkynnt hefði verið um stofnun félagsins, hvíldi á kæranda. Dagsetning tilkynningar var 29.11. 1977 og var kærandi því krafinn um rekstrarreikning fyrir tímabilið 1.1.-29.11. 1977 og lokareikning. Þar sem umkrafin gögn bárust ekki var kæranda gerð tekjuviðbót kr. 400.000.

Af hálfu kæranda var krafist niðurfellingar tekjuviðbótarinnar með því að engar forsendur væru fyrir henni og var í því sambandi bent á, að opinber gjöld hefðu verið lögð á kæranda í Reykjanesumdæmi, en á N.N. s.f. í Reykjavík. Láðst hefði að senda inn tilkynningu um stofnun félagsins, fyrr en 29. nóvember 1977.

Í úrskurði ríkisskattanefndar er tekið fram, að með tilkynningu til Firmaskrár Reykjavíkur, dags. 1. janúar 1977, og birst hafi í Lögbirtingablaði nr. 105, 22.12. 1977, hafi verið tilkynnt um stofnun félagsins. Samkvæmt tilkynningunni sé ábyrgð á skuldbindingum félagsins þannig háttað, að kærandi og eiginkona hans beri beina og ótakmarkaða ábyrgð, en bróðir kæranda ábyrgist skuldbindingar félagsins með tiltekinni fjárhæð kr. 100.000 sem samlagsmaður. Þá segir svo í úrskurðinum:

„Að þessu athuguðu þykir stofnun félags þessa bera þann keim af málamyndagerningi, að sú niðurstaða þykir ekki tæk að viðurkenna það sem sjálfstæðan skattaðila.“ Í samræmi við þetta taldi ríkisskattanefnd bera að fella niður hina kærðu tekjuviðbót, en jafnframt að skattleggja tekjur og eign félagsins með tekjum og eignum félagsaðila. Upplýst hefði verið af hálfu kæranda, að ekki lægi fyrir skriflegur félagssamningur, en samkvæmt munnlegu samkomulagi um „félagsstofnunina“ ætti samlagsmaður ekki rétt til hlutdeildar í tekjum félagsins. Bæri því að skattleggja hreinar tekjur félagsins 1977 með tekjum kæranda og hreina eign félagsins í lok þess árs með eignum hans.

Þá kom upp ágreiningur varðandi kæruheimild vegna tekjuviðbótar, er skattstjóri hafði gert félaginu að fjárhæð kr. 800.000 vegna ósvaraðs fyrirspurnarbréfs um misræmi greiddra launa samkvæmt gögnum og sundurliðanir gjaldfærðs viðhaldskostnaðar og kaupverðs eigna kæranda. Fyrirspurnarbréf skattstjóra var dagsett 29.12. 1978. Tekjuauki þessi var kærður með bréfi, dags. 31.5. 1979, er barst ríkisskattanefnd 12.6. 1979. Engin svör höfðu borist skattstjóra frá félaginu. Ríkisskattstjóri krafðist frávísunar á þeim grundvelli, að ekki hefði verið kært til skattstjóra. Umboðsmaður kæranda kvað bréf hafa misfarist. Af hans hendi var fyrir ríkisskattanefnd gerð grein fyrir nefndum mismun og lögð fram gögn um fyrrnefndan gjaldalið og sundurliðun kaupverðs lögð fram. Um þennan þátt málsins segir svo í úrskurði ríkisskattanefndar:

„Með kæru, dags. þann 15. nóvember 1978, til ríkisskattanefndar, er kærandi að kæra skatta sína samkvæmt heimild í 41. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 40. gr. sömu laga og á kæruefnið rætur að rekja til álagningar á N.N. s.f. sem sjálfstæðan skattaðila. Af þessum sökum og með hliðsjón af málavöxtum að öðru leyti þykir mega fjalla efnislega um tekjuauka þann, er félaginu var gerður.“

Felldi ríkisskattanefnd tekjuaukann niður með vísan til fram kominna gagna og skýringa kæranda. Gjaldaliðurinn umdeildi var ákvarðaður skv. framlögðum gögnum. Hreinum tekjum og eign félagsins á grundvelli skattframtals þess var bætt við tekjur og eign kæranda og með sérstökum úrskurði voru opinber gjöld á félagið felld niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja