Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 112/1979
Gjaldár 1977
Lög nr. 68/1971, 5. gr.
Dánarbú - Skattskylda - Skattvísitala
Ágreiningur reis um skattlagningu dánarbús. X andaðist 2. júlí 1977. Skattframtal vegna X og dánarbús hans var dags. 22. desember 1977. Fór álagning skattstjóra fram 30. desember 1977. Þess var krafist í fyrsta lagi, að kr. 514.443, er erfingjar hefðu fengið greiddar, yrðu skattlagðar hjá þeim en gjaldstofn dánarbúsins lækkaður að sama skapi. Skattstjóri hafði talið, að líta yrði á greiðslur þessar sem launagreiðslur X, þar sem þær gætu ekki fallið undir 21. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Í öðru lagi var þess krafist, að frádrætti og afslætti skyldi miða við sjö mánuði en ekki sex, þar sem X hefði fengið sjö mánaða kaup, er hann lést. Skattstjóri hafði talið óhjákvæmilega verklagsreglu að miða við andlát skattþegns eða í þessu tilfelli við tímabilið 1. janúar - 2. júlí, er væru sex mánuðir. Í þriðja lagi var þess krafist, að miðað yrði við skattvísitölu samkvæmt auglýsingu nr. 1/1978, er gilda skyldi um tekjur ársins 1977, en skattvísitala þessi hefði verið 213 stig, en ekki skattvísitölu ársins á undan, sem hefði verið 162,5 stig. Skattstjóri hafði hafnað þessari kröfu á þeim forsendum, að úrskurður hefði verið kveðinn upp fyrir áramót 1977/1978 og hefði skattvísitala ársins 1977 ekki legið þá fyrir.
Af hálfu ríkisskattstjóra var þess krafist, að um skattlagningu tekna X fram að dánardegi færi eftir þeim reglum, sem giltu um sköttun einstaklinga. Greiðsla sú, er að framan er getið um, yrði að teljast hafa fallið til dánarbús X, en um skattlagningu þeirra færi eftir þeim reglum, sem um félög giltu. Staðfestingar var krafist á ákvörðun skattstjóra á persónuafsláttum og viðmiðun við skattvísitölu gjaldársins 1977. Í samræmi við þessi sjónarmið taldi ríkisskattstjóri að skattstofna bæri að ákveða svo:
„Í framhaldi af ofanrituðu færast eftirtaldar tekjur og frádrættir á framtal X
Reiknuð húsaleiga í 6 mán.: 21.836 kr.
Laun frá 1/1-2/7 1.721.450 "
Fyrning húsnæðis í 6 mán.: 3.970 "
Lífeyrissjóðsfrádráttur 60.875 "
Frádr. stéttarfél.gjalds 14.321 "
Hjá dánarbúinu mynda eftirtaldar tekjur og frádráttur skattstofn:
Reiknuð húsaleiga í 6 mán.: 21.836 kr.
Greiðslur skv. 21. gr. laga nr. 38/1954 514.443 "
Fyrning húsnæðis í 6 mán. 3.970 "
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:
„Við andlát X lauk skattskyldu hans, en jafnframt stofnaðist skattskylda dánarbús hans, sbr. E-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 68/1971. Framtal fyrir hans hönd og dánarbúsins er dags. 22. des. 1977. Dánarbúið virðist hafa verið undir skiptum er álagningin fór fram og verður að fallast á skoðun ríkisskattstjóra um skattlagningu teknanna og skiptingu þeirra milli X og dánarbús X. Þó þykir bera að fella niður úr tekjum dánarbúsins kr. 514.443.- með þeim rökstuðningi, að systrum X heitins hafi verið greidd fjárhæð þessi fremur eftir sérstöku samkomulagi við þær, en eftir beinni lagaskyldu skv. 21. gr. laga nr. 38 1954. Jafnframt er fallist á, að miða reiknaða húsaleigu og fyrningu húsnæðis við sama tímabil og ríkisskattstjóri leggur til.
Tekjur þær, sem um ræðir í máli þessu, féllu allar til á árinu 1977. Þótt álagning skattstjóra hafi farið fram þann 30. desember 1977 er ljóst, að skattvísitala gjaldársins 1978 var þá tiltæk og af gögnum málsins má ráða, að framtal kæranda hefur verið talið til þess árs. Þykir því mega leggja til grundvallar skattvísitölu gjaldárið 1978, sbr. 7. gr. laga nr. 86/1977, fjárlaga fyrir árið 1978 og auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 1/1978.“