Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 338/1979
Gjaldár 1978
Lög nr. 68/1971, 5. gr.
Dánarbú - Skiptalok
Kærður var álagður eignarskattur á dánarbú gjaldárið 1978.
Umboðsmaður erfingja N.N., er andaðist þann 4. júní 1977, skilaði skattframtali fyrir þeirra hönd vegna dánarbúsins í framtalsfresti gjaldárið 1978. Tekið var fram í athugasemdadálki framtalsins, en engar tekjur hefðu verið á árinu 1977 og engar eignir í lok þess árs og að skipti dánarbúsins hefðu farið fram þann 22. desember 1977.
Skattstjóri áætlaði dánarbúinu stofn til álagningar eignarskatts gjaldárið 1978 á þeim forsendum, að búskiptum hefði ekki verið lokið, fyrr en við greiðslu erfðafjárskatts þann 20. janúar 1978, og því hefði dánarbúið verið sjálfstæður skattaðili í árslok 1977.
Af hálfu kæranda var því haldið fram, að gengið hefði verið frá búskiptum fyrir áramót, þannig að hver hefði fengið sinn erfðahlut, enda þótt erfðafjárskattur hefði ekki verið bókaður greiddur, fyrr en í janúar 1978. Hefðu erfingjar talið eignir dánarbúsins komnar í sín eignarráð 1. janúar 1978 á framtölum sínum og hefðu greitt fasteignagjöld og eignarskatt í samræmi við það gjaldárið 1978.
Ríkisskattanefnd taldi að leggja ætti til grundvallar í málinu, að búskiptin hefðu í raun farið fram fyrir árslok 1977, enda þótt greiðsla erfðafjárskatts ætti sér ekki stað, fyrr en eftir áramótin. Féllst ríkisskattanefnd því á kröfu kæranda og felldi niður álagðan eignarskatt á dánarbúið.