Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 666/1979
Gjaldár 1972-1977
Lög nr. 68/1971, 7. gr.
Skattskyldar tekjur - Auðgunarbrot
Málavextir voru þeir, að kærandi sætti rannsókn rannsóknardeildar ríkisskattstjóra á bókhaldi sínu og framtalsgögnum gjaldárin 1972-1977. Taldi ríkisskattstjóri, að við rannsóknina hefði verið leitt í ljós, að tekjur kæranda hefðu verið verulega vanframtaldar umrædd ár. Ákvarðaði ríkisskattstjóri á grundvelli rannsóknarinnar opinber gjöld kæranda að nýju. Að því er snerti tvö tilfelli varðandi ætlaðar vanframtaldar tekjur bar kærandi m.a. fyrir sig, að annað tilfelli væri til meðferðar ákæru- og dómsyfirvalda m.a. út af hugsanlegu saknæmu atferli hans og í hinu tilfellinu hefði hann verið dæmdur í sakadómi til refsingar fyrir að hafa fjársvikið fé, í síðara tilfellinu hlyti álagning á þær tekjur að falla niður með því að hann hefði verið dæmdur til refsingar fyrir auðgunarbrot að því er þær snerti og í hinu fyrra tilfelli yrði að líta svo á, að stjórnsýsluaðili væri ekki bær til umfjöllunar, fyrr en málið hefði verið til lykta leitt af nefndum yfirvöldum.
Ríkisskattanefnd féllst ekki á rök kæranda varðandi fyrra tilfellið, enda yrði ekki séð af ákæruatriðum, að kæranda væri gefið að sök að hafa orðið ber að fjársvikum eða öðru auðgunarbroti að því er snerti þær tekjur, sem hann var álitinn hafa vanframtalið til skatts. Ákæran á hendur honum lyti m.a. að fjársvikum en vegna annars en þeirra tekna. Að því er snerti síðara tilfellið áleit ríkisskattanefnd, að fé, sem fjársvikið teldist svo sem greint væri í dómi sakadóms í máli kæranda, gæti ekki skoðast löglegur skattstofn samkvæmt lögum nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt.