Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 339/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 7. gr.  

Söluágóði - Galli - Efndir samnings

Kærð var sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1978 að hækka tekjur hans um kr. 231.900 vegna ætlaðs söluhagnaðar af bifreið af árgerð 1975, er kærandi hafði keypt nýja þ ann 20, nóvember 1975 fyrir kr. 1.318.100, en selt hana aftur innan tveggja ára eða þann 26, apríl 1977 umboðsaðila fyrir bifreiðategundina. Seldi umboðið kæranda sama dag bifreið sömu tegundar, árgerð 1977. Við þessi viðskipti var söluverð eldri bifreiðarinnar talið kr. 1.550,000, en verð nýju bifreiðarinnar var kr. 1.750,000.

Kærandi andmælti því, að mismunur sá, er fram hefði komið við bifreiðaskiptin, gæti talist hreinn söluhagnaður með því að þar væri verið að koma til móts við skakkaföll að nokkru, sem hann hefði orðið fyrir vegna eldri bifreiðarinnar, er reynst hefði stórgölluð. Hefði hann keypt bifreiðina í góðri trú, en stórfelldir gallar hefðu fram komið, og umboðsaðilinn viðurkennt bótaskyldu sína og fallist á að taka bifreiðina aftur og láta aðra í staðinn. Hefðu þessi viðskipti miðað að því einvörðungu að gera kæranda jafnsettan og áður, að fá ógallaða bifreið í stað gallaðrar. Kærandi lagði fram yfirlýsingu bifreiðainnflytjandans um viðskipti aðilanna. Var þar staðfest, að bifreiðin hefði reynst gölluð og viðurkennd hefði verið bótaskylda fyrirtækisins. Ákveðið hefði verið að taka bifreiðina aftur og láta aðra í staðinn, Hefði þetta orðið að samkomulagi og framkvæmt. Greiðsla í millum bifreiðanna kr. 200.000 hefði verið umsamin fyrir afnot (slit) af bifreiðinni umráðatímann. Þá var þess getið í yfirlýsingunni að mismunur upphaflegs kaupverðs og yfirtökuverðs hinnar gölluðu bifreiðar kr. 231.900 gæti ekki skoðast skattskyldur söluágóði, þar sem viðskiptavinurinn hefði verið jafnsettur og áður.

Af hálfu ríkisskattstjóra var krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með þessum rökum:

„Telja verður að söluverð bifreiðarinnar hafi verið það sem greinir á framtali kæranda. Ljóst er að tilgangur samnings kæranda og ..... h.f. var að gera kæranda jafn settan fjárhagslega og áður en líklega hefur samningsaðilum sést yfir skattaleg áhrif samningsins. Unnt er að gera kæranda jafn settan og áður en ekki verður það talið í verkahring skattyfirvalda.“

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Í máli þessu þykir í ljós leitt, að viðskipti aðilanna hafi verið fólgin í því að bæta kæranda að galli reyndist á bifreið þeirri, er honum var seld, á þann veg að ógölluð bifreið kom í stað þeirrar, er áfátt var. Eigi var því um sölu að ræða.

Með skírskotun til framanritaðs þykir því bera að fella niður teknaviðbót að fjárhæð kr. 291.900 vegna ætlaðs söluhagnaðar.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja