Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 986/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 7. gr. A-liður  

Launauppbót - Endurgreiðsla kostnaðar

Skattstjóri færði kæranda til tekna ferðapeninga kr. 318.260 að viðbættum viðurlögum kr. 79.565.-.

Kærandi, sem var starfsmaður við Sigöldu taldi að svo hefði verið um samið, að þessi upphæð færðist hvorki til tekna né gjalda, Þessi upphæð hefði verið greidd til að mæta þeim kostnaði og óhagræði, sem fælist í því að vinna svo fjarri heimili sínu.

Skattstjóri tók fram í úrskurði sínum, að samkvæmt upplýsingum, er hann hefði aflað sér, væri hér um að ræða greiðslu fyrir þann tíma, er ferðirnar stæðu og auk þess staðaruppbót. Starfsmenn fengju hins vegar ferðirnar fríar.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Af hálfu umboðsmanna kæranda hafa ekki komið fram mótbárur við þær upplýsingar, sem fram koma í úrskurði skattstjóra og tilgreindar eru hér að framan. Þar eð ekki er örugg lagaheimild til frádráttarhæfni þess kostnaðar, sem lýst er í kæru, er krafa kæranda ekki tekin til greina að þessu leyti. Hins vegar þykir með tilliti til málavaxta bera að falla frá beitingu viðurlaga.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja