Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 414/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 116. gr.   Lög nr. 82/1989 — 10. gr. 1. mgr. 1. tl.   Reglugerð nr. 629/1981   Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1989, liður 2.2.1.  

Skattskyldar tekjur — Hlunnindi — Hlunnindamat ríkisskattstjóra — Fatnaðarhlunnindi — Einkennisföt — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat ríkisskattstjóra — Fangavörður — Ársstarf — Gjald til Framkvæmdasjóðs aldraðra — Framkvæmdasjóður aldraðra — Skattskylda — Gjaldskylda til Framkvæmdasjóðs aldraðra — Nefskattur — Félagafrelsi — Alþjóðasamningur — Mannréttindi

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1990. Kæruefni eru sem hér segir:

1. Skattlagning hlunninda (einkennisfatnaðar). Málavextir eru þeir, að kærandi, sem starfaði sem fangavörður, færði sér til tekna skattskyld hlunnindi vegna einkennisfatnaðar, er vinnuveitandi lét honum í té. Var fjárhæð hlunnindanna 11.990 kr. Í athugasemdadálki skattframtalsins gat kærandi þess, að hann teldi fram einkennisföt þau, sem hann hefði notað við sumarafleysingar við fangavarðarstörf 1989, en gerði fyrirvara um skattlagningu þeirra sem hlunninda. Við álagningu gjaldárið 1990 var byggt á framtali nefnds tekjuliðs 11.990 kr. og hann skattlagður.

Af hálfu kæranda var álagningin kærð með kæru, dags. 27. ágúst 1990, og þess krafist, að fyrrnefndur tekjuliður yrði felldur undan skattlagningu. Færði kærandi fram þau rök, að honum væri skylt að nota einkennisbúning fangavarða við fangavarðarstörf þau, er hann hefði gegnt á X í sumarafleysingum árið 1989. Vísaði kærandi og til greinar 8.2.1. í aðalkjarasamningi ríkisins og SFR, er kvæði svo á um, að þar sem krafist væri einkennisfatnaðar, skyldi starfsmönnum séð fyrir slíkum fatnaði þeim að kostnaðarlausu. Kvað kærandi búninginn ekki vera sér að kostnaðarlausu, þyrfti hann að gjalda skatt af honum. Væri ákvörðun skattstjóra því í ósamræmi við gildandi kjarasamning ríkisins og SFR. Þá tefldi kærandi fram þeim málsástæðum, að einkennisbúningurinn væri ekki eign hans heldur ríkisins og að honum hefði verið óleyfilegt að nota búninginn nema við afleysingastörf á X. Með kæruúrskurði, dags. 3. október 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum, að einkennisfatnaður, sem vinnuveitandi léti launþega í té án endurgjalds, væri skattskyldur skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. október 1990. Krefst kærandi niðurfellingar á skattlagningu hlunninda vegna einkennisfatnaðar og færir fram þau sömu rök fyrir þessari kröfu og fram komu í kæru til skattstjóra, dags. 27. ágúst 1990.

2. Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Málavextir eru þeir, að við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1990 var lagt á kæranda gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra 3.160 kr., sbr. 1. tl. 10. gr. laga nr. 82/1989, um málefni aldraðra. Kærandi mótmælti álagningu gjalds þessa í kæru, dags. 27. ágúst 1990 á þeim forsendum, að hann hefði „aldrei gengið sjálfviljugur í það sjóðsfélag sem mér er nú gert að greiða til, þ.e. framkvæmdasjóðs aldraðra“. Skírskotaði kærandi til mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, er kvæði á um félagafrelsi. Með kæruúrskurði, dags. 3. október 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum, að hann væri gjaldskyldur til nefnds gjalds og undanþáguákvæði 2. mgr. 1. tl. 10. gr. laga nr. 82/1989, um málefni aldraðra, tækju ekki til hans.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. október 1990, og þess krafist, að álagt gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra verði fellt niður, enda sé gjaldið ekkert annað en félagsgjald, er ekki fái staðist samkvæmt alþjóðasamningum um mannréttindi, er Ísland sé aðili að, er m.a. kveði á um, að ekki megi neyða menn til þess að vera í félögum. Telur kærandi, að ákvæði íslenskra laga, er mæla fyrir um gjaldtöku þessa, fái ekki staðist í ljósi nefndra alþjóðasamninga um mannréttindi.

Með bréfi, dags. 15. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 75/1981 kemur fram skilgreining á því hvað telja beri til tekna í skilningi þeirra. Skv. 1. mgr. 7. gr. laganna teljast skattskyldar tekjur „hverskonar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru…“. Af þessu leiðir að einkennisfatnaður telst óumdeilanlega til hlunninda sem meta má til peningaverðs og skattleggja samkvæmt því.

Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra er lögmælt álag, svokallaður persónuskattur og er gjaldskylda lögð á alla þá einstaklinga sem uppfylla skilyrði laganna um tekjuskattsstofn og aldur sbr. lög nr. 82/1989. Liggur almennur efnislegur mælikvarði til grundvallar og er því ekki hægt að sjá á hvern hátt gjaldskylda í Framkvæmdasjóð aldraðra geti á nokkurn hátt túlkast sem verið væri að neyða menn til að gerast aðilar að félagi. Þegar af þeirri ástæðu ber að staðfesta úrskurð skattstjóra.“

Um 1. tl. Kærandi vefengir, að einkennisföt þau, sem honum voru látin í té vegna fangavarðarstarfa þeirra, er hann gegndi á árinu 1989, geti talist honum til tekna sem skattskyld hlunnindi samkvæmt 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Slík hlunnindi, sem hér um ræðir, hefur ríkisskattstjóri metið til tekna skv. 116. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. tölulið 2. 2. 1. í skattmati embættisins framtalsárið 1990, dags. 5. janúar 1990, er birtist í 8. tbl. Lögbirtingablaðs 1990, útg. 19. janúar þ.á. Í skattmati þessu eru einkennisföt karla metin á 11.990 kr. sem er sú fjárhæð, sem skattlögð hefur verið hjá kæranda sem skattskyld hlunnindi vegna einkennisfatnaðar. Það hefur fram komið af hálfu kæranda í máli þessu, að hann hafi starfað sem sumarafleysingamaður við fangavörslu á árinu 1989 og er því ómótmælt. Að því virtu verður ekki talið, að sú fjárhæð, sem skattlögð hefur verið sem hlunnindi hjá kæranda, geti átt við í hans tilviki, enda verður að álíta, að full matsfjárhæð sé miðuð við fullt ársstarf. Þá þykir í þessu sambandi bera að líta til ákvæða reglugerðar nr. 629/1981, um einkennisfatnað fangavarða, m.a. um úthlutun fatnaðar og skil hans. Að svo vöxnu og þar sem önnur og lægri fjárhæð hefur ekki verið leidd fram hvorki af hálfu skattstjóra né ríkisskattstjóra þykir bera að hnekkja hinni umdeildu skattlagningu og taka kröfu kæranda til greina um þetta kæruatriði af framangreindum sökum.

Um 2. tl. Kærandi er gjaldskyldur til hins umdeilda skatts samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 82/1989, um málefni aldraðra, og er raunar ekki um það deilt, að kærandi falli undir gjaldskyldu samkvæmt grein þessari og njóti ekki þargreindra undanþáguákvæða. Þykir því bera að staðfesta úrskurð skattstjóra um þetta kæruatriði, enda þykja ákvæði þeirra alþjóðasamninga, sem kærandi ber fyrir sig, ekki breyta neinu um skýringu þeirrar réttarheimildar, sem gjaldskylda kæranda byggist á.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja