Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1238/1979
Gjaldár 1978
Lög nr. 68/1971, 7. gr. A-liður
Endurgreiddur útlagður kostnaður - Risna
Kærð var sú ákvörðun skattstjóra að lækka gjaldfærðan risnukostnað um kr. 48.968 eða úr kr. 83.968 í kr. 35.000 á þeim grundvelli að kærandi hefði ekki lagt fram reikninga til staðfestingar á kostnaði þessum. Kærandi færði umræddan risnukostnað til frádráttar á móti fengnu risnufé sömu fjárhæðar frá tilgreindum félagssamtökum en kærandi var framkvæmdastjóri samtakanna. Af hálfu kæranda var þess krafist að tilfærður risnukostnaður yrði að fullu tekinn til greina. Kostnaðurinn væri til kominn vegna tíðra gestakoma á heimili hans á vegum félagssamtakanna og veitts beina þar í því sambandi. Risna þessi væri hluti af heimilishaldi og því ógerningur að leggja fram reikninga vegna risnuhaldsins sérstaklega.
Af hálfu ríkisskattstjóra var krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:
„Svo sem starfi kæranda sýnist háttað og stutt er með yfirlýsingu formanns og skrifstofustjóra samtaka þeirra, er hann veitir framkvæmdastjórn, þykir mega byggja á því, að hér sé um að ræða endurgreiðslu á útlögðum kostnaði kæranda í þágu samtakanna. Er því fallist á kröfu kæranda, enda þykir fjárhæð sú, sem um er að ræða, vera innan hóflegra marka.“