Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 140/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 7. gr. D-liður  

Vextir af stofnsjóðsinnstæðum - Samlög

Skattstjóri hækkaði teknahlið skattframtals kæranda um kr. 133.007 vegna vaxta af innstæðu í stofnsjóði mjólkursamlags nokkurs.

Kærandi færði til eignar á skattframtali sínu gjaldárið 1978 innstæðu í stofnsjóði mjólkursamlags kr. 947.499 og tilgreindi vaxtatekjur af innstæðunni kr. 133.007, en lét þess jafnframt sérstaklega getið á framtali, að þær væru ekki skattskyldar og færði því ekki til tekna. Skattstjóri tilkynnti kæranda, að umrædd upphæð myndi færð til tekna á framtali. Kærandi mótmælti fyrirhugaðri breytingu.

Af hálfu kæranda var því haldið fram, að tillag til samlagsstofnsjóðs væri eðli sínu samkvæmt eins og hvert annað sparifé, sem nýttist mjólkursamlaginu sem rekstrarfé og ætti því að vera skattfrjálst eftir sömu reglum og annað skattfrjálst sparifé.

Skattstjóri taldi, að vaxtatekjur af umræddri innstæðu í stofnsjóði mjólkursamlagsins væru skattskyldar skv. 1. málslið D-liðar 7. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, enda yrði slíkum innstæðum ekki jafnað við sparifé í innlánsstofnunum og ættu því ákvæði 1. málsliðar D-liðar 7. gr. laga nr. 68/1971, sem undanþiggja vexti af skattfrjálsum sparisjóðsinnlánum skattskyldu ekki við í þessu tilviki.

Af hálfu ríkisskattstjóra var þess krafist í málinu, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Umræddur stofnsjóður er eigi stofnsjóður í skilningi laga nr. 46/1937, um samvinnufélög, og eigi verður innstæðum í honum jafnað til sparifjár í innlánsstofnunum. Taka því ákvæði 2. málsliðar D-liðar 7. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, ekki til vaxta af umræddri stofnsjóðsinnstæðu. Eru því ekki efni til breytinga á úrskurði skattstjóra og er hann staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja