Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1311/1979

Hlutafélag - Samruni - Félagsslit

Kærð var sú ákvörðun skattstjóra að færa kæranda til tekna kr. 1,486.700 sem arðsúthlutun vegna félagsslita hlutafélagsins X.

Málavextir voru þeir, að kærandi keypti þann 10. mars 1973 hlutabréf í X h.f. að nafnverði kr. 40.000. Þann 3. október 1977 seldi kærandi Y h.f. umrædd hlutabréf og var söluverð þeirra kr. 1.640.000. Jafnframt kaupum á hlutabréfum kæranda keypti Y h.f. á þessum tíma öll önnur hlutabréf í X h.f. Hugðist fyrrnefnda félagið, að kaupum þessum loknum, leggja hið síðarnefnda niður.

Með því að öll hlutabréf í X h.f. voru keypt af einum aðila Y h.f., taldi skattstjóri, að hér væri um skattskylda arðsúthlutun við félagsslit að ræða skv. 2. mgr. D-liðs 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt, enda yrði að telja, að með kaupum Y h.f. á hlutabréfunum hefði X h.f. í raun verið slitið. Færði skattstjóri því kæranda til tekna söluverð hlutabréfanna að frádregnu nafnverði þeirra og þeirri fjárhæð, er heimilt hefði verið að úthluta sem jöfnunarhlutabréfum.

Af hálfu kæranda var því mótmælt, að um skattskyldu gæti verið að ræða hjá honum vegna umræddrar ráðstöfunar og var því til stuðnings á það bent, að kærandi hefði átt hlutabréfin í meira en fjögur ár, þegar sala fór fram, er skv. 1. mgr. E-liðs 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt leiddi til þess, að ekki gæti verið um skattskyldu að ræða. Kærandi gat þess, að rekstur X h.f. hefði verið orðinn mjög lítill og eignir fáar, en Y h.f. hefði haft hug á að komast yfir þau tæki, sem eftir voru í félaginu. Hafi Y h.f. þá gert tilboð í allt hlutafé X h.f., en hugðist síðan leggja félagið niður, ef hluthafar gengju að tilboðinu. Af hálfu kæranda var tekið fram, að haft hefði verið samband símleiðis við embætti bæjarfógeta og embætti skattstjóra viðvíkjandi réttarlegri þýðingu þessarar ráðstöfunar og hefðu upplýsingar þessara embætta stuðlað að góðri trú kæranda um skattfrelsi í þessum efnum.

Ríkisskattstjóri krafðist þess, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur.

Í úrskurði sínum komst ríkisskattanefnd að svofelldri niðurstöðu:

„Að gerðum kaupum Y h.f. á hlutabréfum í X h.f. með þeim hætti sem í máli þessu greinir og svo sem atvikum málsins er farið að öðru leyti þykir verða að líta svo á, að ákvæði VI. kafla laga nr. 77/1921, um hlutafélög, hafi tekið til síðarnefnda hlutafélagsins og um slit þess hafi verið að ræða. Með því, að eigi var um þess konar samruna félaganna að ræða og greinir í 8. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt, þykir bera með vísan til 8. málsl. 2. mgr. D-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971 að staðfesta úrskurð skattstjóra.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja