Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1269/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður  

Söluhagnaður búfjár o.fl.

Málavextir voru þeir, að skattstjóri færði kæranda til tekna skattskyldan hagnað kr. 500.000 vegna sölu á jörð nokkurri ásamt lausafé og áhöfn. Jörð þessa seldi kærandi fóstursyni sínum á árinu 1977 fyrir kr. 18.000.000. Skattstjóri óskaði eftir, að kærandi sundurliðaði söluverð þannig, að fram kæmi söluverð einstakra véla, útihúsa, íbúðarhúss, túna, lands og bústofns. í svari umboðsmanns kæranda kom fram, að fyrrgreindar eignir hefðu verið seldar í einu lagi á ákveðnu verði, sem ekki var sundurliðað í kaupsamningi. Nærtækast væri að telja skepnur seldar á matsverði, lausafé á bókfærðu verði, en söluverð fasteigna yrði þá heildarsöluverð að þessum liðum frádregnum. Í framhaldi af þessu svari tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að færa til tekna áætlaðan skattskyldan söluhagnað kr. 500.000. Umboðsmaður kæranda mótmælti þessu og ítrekaði fyrra svar sitt og benti á, að fasteignir hefðu verið í eigu kæranda það lengi, að ekki væri um skattskyldan hagnað að ræða af sölu þeirra. Skattstjóri tók þessar röksemdir ekki til greina. Í úrskurði hans sagði, að með hliðsjón af heildarsöluverði, sem væri ósundurliðað, og með tilliti til þess, að hluti seldra véla og fasteigna væru nýlegar mætti ætla, að skattskyldur hagnaður hefði myndast við sölu.

Af hálfu ríkisskattstjóra var þess krafist aðallega, að hinn kærði úrskurður yrði staðfestur en til vara að söluverði eigna yrði skipt niður í hlutfalli við bókfært verð þeirra á söludegi og sá hagnaður og skattskyldar fyrningar, sem þannig yrði útreiknaður, yrði skattlagður.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Við mat á því hvort um söluhagnað hafi verið að ræða, þykir eðlilegt eins og málið liggur fyrir, að hafa hliðsjón af skattmati hinna seldu eigna og eignarhaldstíma. Fyrir liggur, að bústofn var seldur á matsverði sbr. landbúnaðarskýrslu.

Með framtali kæranda gjaldárið 1977 fylgir fyrningarskýrsla yfir fasteignir og lausafé. Fasteignir eru afskrifaðar lágmarksfyrningu og hafa flestar verið í eigu kæranda það lengi, að ekki er um skattskyldan hagnað að ræða. Lausafé samkvæmt fyrningarskýrslu er að verulegum hluta til keypt 1973 og fyrr og hefur verið afskrifað með lágmarksfyrningu. Með tilliti til verðhækkana, sem síðan hafa átt sér stað, má ætla, að eðlilegt söluverð þeirra vegi mun hærra en skattmat.

Að þessu athuguðu þykir eigi hafa verið sýnt fram á, að um skattskyldan söluhagnað sé að ræða af sölu þessari. Ber því að fella áætlaðan söluhagnað skattstjóra niður.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja