Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1406/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður  

Hlutabréf - Söluágóði

Kærð var sú ákvörðun skattstjóra að hækka tekjur kæranda um kr. 1.805.273 gjaldárið 1978 vegna skattskylds ágóða af sölu hlutabréfa. Málavextir voru þeir, að kærandi keypti hlutabréf í Á h/f að nafnverði kr. 4.000 og í B h/f að nafnverði kr. 24.000 árið 1973. Kaupverð var kr. 1.000.000. Árið 1974 fékk kærandi sem laun frá Á h/f hlutabréf að nafnverði kr. 3.000 og í B h/f að upphæð kr. 24.000. Kaupverð var metið kr. 600.000. Árið 1975 fékk kærandi sem laun hlutabréf í Á h/f að nafnverði kr. 9.000 og í B h/f að nafnverði kr. 54.000. Kaupverð var metið kr. 1.000.000. Samanlagt kaupverð bréfanna var því kr. 2.600.000 en samanlagt nafnverð kr. 118.000. Í desember 1977 seldi kærandi B h/f hlutabréf í Á h/f. kr. 4.000 og í B h/f kr. 24.000. Söluverð nam kr. 5.350.000.

Skattstjóri taldi bera að beita ákvæðum 4. málsl. 8. mgr. E-liðs 7. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Kæmi því skattfrelsi nefndra hlutabréfa hlutfallslega til frádráttar við ákvörðun söluágóða á grundvelli meðalverðs allra hlutabréfa sömu tegundar í hendi kæranda. Árið 1973 hefðu verið keypt 23,72% af hlutafé, árið 1974 fengin 22,89% af hlutafé og árið 1975 fengin 53,39% af hlutafénu. Árið 1977 hefðu 23,72% bréfanna verið seld og söluverð kr. 5.350.000 ósundurgreint. Kaupverð bæri að reikna 23,72% af kr. 2.600.000 eða kr. 616.720. Taldi skattstjóri því söluágóða nema kr. 4.733.280, þar af væri sökum eignarhaldstíma 23,72% eða kr. 1.122.734 skattfrjáls. Af því sem eftir stæði eða kr. 3.610.546 væri 50% skattfrjáls eða kr. 1.805.273 vegna eignarhaldstíma lengri en 2 ár en skemmri en 4 ár, en kr. 1.805.273 kæmi til skattlagningar.

Af hálfu kæranda var þess krafist, að tekjuhækkun skattstjóra yrði niður felld. Kærandi mótmælti túlkun skattstjóra á 4. málsl. 8. mgr. E-lið 7. gr. skattalaga, enda væri fortakslaust tekið fram um skattfrelsi ágóða af sölu hlutabréfa í skattalögum, hefði skattþegn átt hlutabréfin í full fjögur ár eða lengur. Kærandi kvaðst hafa keypt hin seldu bréf með því skilyrði, að þau yrðu endurkeypt, ef hann óskaði þess og þá heimild hefði hann nýtt sér í desember 1977. Hefði hér verið um ákveðin númeruð bréf að ræða. Skv. starfssamningi hefði honum borið að taka hluta launa í hlutabréfum, en engan rétt hefði hann átt á því, að þau yrðu endurkeypt við starfslok.

Kærandi lagði fram staðfestingu forsvarsmanns Á h/f og B h/f þess efnis, að kærandi hefði ávallt átt rétt á því, að selja honum eða B h/f hlutabréf þau, sem kærandi keypti í janúar 1973, þ.e. hlutabréf í Á h/f að nafnverði kr. 4.000 og í B h/f að nafnverði kr. 24.000. Hefði B h/f keypt bréf þessi í desember 1977.

Ríkisskattstjóri krafðist þess, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur.

Ríkisskattanefnd komst að svofelldri niðurstöðu:

„Í máli þessu þykir í ljós leitt, að um sölu hlutabréfa hafi verið að ræða, er lengur hafi verið í eigu kæranda en fjögur ár. Með skírskotun til 1. mgr. E-liðs 7. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, telst ágóði af sölu hlutabréfa þessara ekki til skattskyldra tekna. Skv. framansögðu er krafa kæranda tekin til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja