Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 464/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 7. gr. 3. mgr., 4. mgr., 7. mgr. E-liðar  

Söluágóði - Íbúðarhúsnæði - Atvinnuhúsnæði

Kærð var sú ákvörðun skattstjóra, að ákveða kæranda skatt af hagnaði vegna sölu húseignar, en hagnað þennan taldi skattstjóri nema kr. l.824.949.

Málavextir voru þeir, að með kaupsamningi, dags. 7. október 1977, seldi kærandi íbúðarhús sitt á -----firði, ásamt bílskúr og var söluverð alls kr. 12.000.000.

Húseign þessa hafði kærandi keypt með kaupsamningi, dags. 10. desember 1974, og var kaupverð alls kr. 5.000.000. Stærð húseignar þessarar skv. fasteignamatsskrá var samtals 537m3. Með kaupsamningi, dags. 27. október 1977, keypti kærandi íbúð í Reykjavík fyrir kr. 12.000.000 og taldist stærð þeirrar íbúðar vera 397m3.

Með því að kærandi hafði ekki átt hina seldu eign í full þrjú ár taldi skattstjóri, þar sem hið keypta húsnæði væri minna að rúmmáli en hið selda, að skattleggja bæri söluhagnað í hlutföllum rúmmáls eignanna. Mismunur kaup-verðs og söluverðs var kr. 7.000.000 og hin keypta húseign 26.0707% minni en hin selda. Taldi skattstjóri því bera að skattleggja söluhagnað að fjárhæð kr. 1.824.949.

Með kæru til ríkisskattanefndar fylgdi vottorð Fasteignamats ríkisins, dags. 14. nóvember 1978, um stærð og mat húseignanna á -----firði. Samkvæmt vottorði þessu var stærð íbúðarhúss 397m3 og mat kr. 9.196.000 og stærð verslunarskúrs 140m3 og mat kr. 944.000. Með vísan til vottorðs þessa, er sýndi að lítið verðmæti væri fólgið í verslunarskúrnum, var af hálfu kæranda þess farið á leit, að ekki yrði tekið tillit til skúrs þessa við skattákvörðun.

Ríkisskattstjóri krafðist þess aðallega, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur. Til vara gerði ríkisskattstjóri svofellda kröfu:

„Telji ríkisskattanefnd að rúmmál svonefnds verslunarhúss 140m3 eigi ekki að teljast til heildarrúmmáls hinnar seldu íbúðar er gerð sú krafa að hagnaður af sölu þess verði skattlagður sérstaklega og fari þá um skattlagningu hagnaðarins eftir ákvæðum 1. málsl. 3. mgr. E-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971. Og um ákvörðun á kostnaðarverði þessa hluta eignarinnar og hlutdeildar eignarinnar í heildarsöluverði verði beitt reglu 7. mgr. E-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971.“

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Kærandi í máli þessu seldi húsnæði, er hafði verið í eigu hans skemur en þrjú ár. Þegar metið er, hvort kærandi fullnægi skilyrðum 4. mgr. E-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971 sbr. 3. gr. laga nr. 7/1972 varðandi skattfrelsi ágóða af sölunni þykir bera að byggja á vottorði Fasteignamats ríkisins, dags. 14. nóvember 1978, þar sem fram kemur, að hinar seldu eignir eru annars vegar íbúðarhúsnæði og hins vegar verslunarhúsnæði. Eigi verður á það fallist að telja rúmmál nefnds verslunarhúsnæðis með rúmmáli hins selda íbúðarhúsnæðis við mat á því, hvort skilyrði ofangreindra lagaákvæða hafi verið uppfyllt. Með því að kærandi hefur innan árs keypt íbúðarhúsnæði, er að rúmmáli er jafnstórt hinu selda íbúðarhúsnæði, verður ágóði af þeim þætti sölunnar eigi talinn til skattskyldra tekna.

Með vísan til 3. mgr. E-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971 telst ágóði kæranda af sölu verslunarhúsnæðisins vera skattskyldur. Við skiptingu kaupverðs og söluverðs milli hinna seldu eigna þykir bera að fara eftir 7. mgr. E-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971. Á söludegi var gildandi fasteignamatsverð íbúðarhúsnæðisins kr. 6.957.000 og verslunarhúsnæðis kr. 1.022.000. Hlutfall verslunarhúsnæðis af fasteignamati er því 12,8086%. Hlutdeild í kaupverði telst vera kr. 640.430 og hlutdeild í söluverði kr. 1.537.032. Skattskyldur söluhagnaður verður kr. 896.602.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja