Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 185/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður  

Frestun skattlagningar skattskylds söluhagnaðar

Kærandi, sem var félag, krafðist þess, að sér yrði heimilað að fresta skattlagningu hagnaðar vegna sölu á húseign, er fór fram árið 1977. Skattskyldur hagnaður nam kr. 7.260.406. Skattstjóri hafnaði þessari kröfu á þeim forsendum, að framtalsgögn kæranda gæfu til kynna, að allar eignir félagsins væru seldar og félagið hætt rekstri.

Í kæru til ríkisskattanefndar taldi umboðsmaður kæranda, að líkur væru fyrir því, að starfseminni yrði haldið áfram og myndu þannig uppfyllt þau skilyrði, er þyrfti til frestunar skattlagningar.

Af hálfu ríkisskattstjóra var þess krafist, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur og ítrekað, að á engan hátt væri unnt að fallast á það, að heimild 11. mgr. E-liðar 1. mgr. 7. gr. skattalaga ætti við í tilviki kæranda.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Telja verður ósannað í málinu, að kærandi hafi hætt rekstri og hyggist eigi afla sér eigna til afskrifta. Ber því að taka kröfu hans til greina og heimila frest á skattlagningu þess hagnaðar, sem er umfram yfirfæranleg töp.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja