Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1430/1979
Gjaldár 1975, 1976, 1977 og 1978
Lög nr. 68/1971, 9. gr.
Málavextir voru þeir, að skattstjóri tók skattframtöl kæranda, er var sameignarfélag árin 1975, 1976, 1977 og 1978 til endurálagningar. Taldi skattstjóri að um hefði verið að ræða ráðstöfun varasjóðs samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, þegar litið væri til hreinnar eignar kæranda í ársbyrjun 1974, 1975, 1976 og 1977 og úttektar af höfuðstól þessi ár. Bæri að telja ráðstöfunarfjárhæðir til tekna með 20% álagi. Við mat á bókfærðu eigin fé kæranda miðaði skattstjóri Við höfuðstól að viðbættum varasjóði en að frádregnum fyrningum fasteignar, svo sem liðir þessir voru í byrjun hvers árs.
Af hálfu kæranda var þess m.a. krafist, að miðað yrði við bókfært eigið fé eins og það hefði verið í lok hvers árs. Þá var meðferð skattstjóra á fyrningum fasteigna við ákvörðun á bókfærðu eigin fé mótmælt.
Ríkisskattanefnd féllst á þá kröfu kæranda, að miðað skyldi við bókfært eigið fé svo sem það hefði verið í lok hvers árs. Ennfremur var á það fallist, að telja bæri fyrningar fasteigna með við útreikning á hreinni eign, enda væru fasteignir taldar til eignar á fasteignamati. Þá var 10% úttektarhámark miðað við bókfært eigið fé, áður en úttektarfjárhæð var frádregin. (Leigulóð var ekki talin með, þegar fengin var fjárhæð eigin fjár við þennan útreikning).