Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1412/1979

Gjaldár 1976, 1977, 1978

Lög nr. 68/1971, 9. gr.  

Varasjóður, skattlagning

Málavextir voru þeir, að skattstjóri færði til tekna gjaldárin 1976, 1977 og 1978 varasjóð hlutafélags nokkurs eða kr. 4.476.060 og gjaldárið 1976, kr. 12.991.137 gjaldárið 1977 og kr. 4.028.485 gjaldárið 1978, auk 20% viðurlaga hvert ár.

Samkvæmt framtölum hlutafélagsins var í efnahagsreikningum þess nefnd ár tilgreint 50% íbúðarhúss í smíðum. Byggingarframkvæmdir hófust árið 1975 og var ólokið miðað við framtal 1978.

Skattstjóri taldi byggingu hússins óviðkomandi rekstri félagsins og var varasjóður félagsins skattlagður með vísan til 9. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt.

Umboðsmaður kæranda mótmælti þessu og féllst ekki á, að bygging hússins væri óviðkomandi rekstri félagsins. Eðlilegt væri, að fyrirtækið reyndi að verjast skaðlegum áhrifum verðbólgunnar með því að festa fé sitt í varanlegum fjármunum, sem héldu verðgildi sínu.

Ríkisskattanefnd taldi ekki sannað, að kærandi hefði ráðstafað fé sínu á þann veg, að það leiddi til skattlagningar varasjóðs eftir 9. gr. skattalaga, þar sem fyrir lægi, að kærandi væri samkvæmt veðmálabókum þinglesinn eigandi að nefndum eignarhluta.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja