Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1259/1979
Gjaldár 1978
Lög nr. 68/1971, 9. gr.
Varasjóður - Sönnun
Skattstjóri tók varasjóð hlutafélags nokkurs til skattlagningar vegna kaupa þess á bifreið forstjóra félagsins. Átti forstjórinn 1/3 af hlutafé félagsins.
Skattstjóri taldi, að félagið hefði keypt þessa bifreið óeðlilega háu verði og með stoð í C-lið 9. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt var varasjóður skattlagður með 20% álagi.
Kærandi mótmælti þessu og taldi að verð bifreiðarinnar hefði verið sanngjarnt miðað við allar aðstæður.
Ríkisskattanefnd taldi eins og málsgögnin lægju fyrir ekki nægilega sannað, að bifreiðin hefði verið keypt á óeðlilega háu verði. Var því fallist á kröfur kæranda.