Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1059/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 9. gr.  

Varasjóður, skattlagning - Stjórnarlaun

Skattstjóri strikaði út af gjaldahlið rekstursreiknings tilgreind stjórnarlaun kr. 2.500.000 á þeirri forsendu, að rekstur kæranda, er var hlutafélag, gæfi ekki tilefni til þessara launagreiðslna. Þá færði skattstjóri til tekna varasjóð kæranda kr. 1.475.275 að viðbættum 20% viðurlögum með þeim rökum, að fyrrnefnd greiðsla stjórnarlauna svo og lán til hluthafa teldist ráðstöfun á varasjóði skv. 9. gr. skattalaga.

Kærandi krafðist þess, að stjórnarlaun yrðu að fullu leyfð til frádráttar eða að minnsta kosti að mestum hluta. Þótt ætla hefði mátt að rekstri félagsins hefði verið hætt, væri svo alls ekki, heldur aðeins verið að breyta rekstri félagsins og hefði verið lögð í það mikil vinna, sem lent hefði á stjórnarmönnum.

Þá krafðist kærandi þess að fallið yrði frá skattlagningu varasjóðs. Eitt markmið félagsins væri að reka lánastarfsemi, sbr. samþykktir þess. Nú lægi það fyrir, að aðaltekjur félagsins eða næstum allar væru vextir af skuldabréfum. Gæti því lán í formi skuldabréfa ekki talist rekstri óviðkomandi, hverjum svo sem lánið væri veitt.

Af hálfu ríkisskattstjóra var gerð svofelld krafa:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til röksemda hans. Jafnframt skal á það bent að lán þau, sem greinir í málinu, veitt hluthöfum er ráðstöfun varasjóðs í skilningi A-liðar 1. mgr., sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 68/1971, sjá 4. gr. laga nr. 7/1972. Jafnframt eru lánin tekjur hjá móttakendum eftir ákvæðum D-liðar 7. gr. laga nr. 68/1971.“

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Svo sem háttað er greiðslu hinna svonefndu stjórnarlauna svo og lánveitingum til hluthafa og með vísan til forsendna úrskurðar skattstjóra að öðru leyti, þykir bera að staðfesta hann.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja