Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1335/1979
Gjaldár 1976, 1977
Lög nr. 68/1971, 10. gr. H-liður
Alþjóðastofnanir - Eftirlaun - Úrskurðarvald - Erlendar innstæður
Málavextir voru þeir, að skattstjóri færði kæranda til tekna eftirlaun frá Sameinuðu þjóðunum að fjárhæð kr. 576.112 gjaldárið 1976 og kr. 1.648.104 gjaldárið 1977. Framtalda innstæðu í banka í New York að fjárhæð kr. 1.700.000 færði skattstjóri kæranda til skattskyldrar eignar gjaldár þessi svo og til tekna hvort ár kr. 85.000 sem áætlaðar vaxtatekjur af umræddri innstæðu.
Kærandi rökstuddi kröfu sína um skattfrelsi eftirlaunanna með vísan til b-liðs fskj. með lögum nr. 13 frá 1948, alþjóðasamnings um réttindi S.Þ., sbr. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 68/1971. í fyrrnefndu greininni væri að vísu aðeins talað um „laun“, en það hlyti fyrir lögjöfnun að ná einnig yfir „eftirlaun“. Ennfremur benti kærandi á, hvort íslensk skattyfirvöld ættu úrskurðarvald í máli sem þessu, sbr. 20., 29. og 30. gr. fyrrnefnds samnings. Þá taldi kærandi bankainnstæður (og vexti af þeim), þótt erlendis væru, skattfrjálsar skv. beinum fyrirmælum 21. gr. laga nr. 68 frá 1971, 1. mgr. B og 2. mgr. sbr. og 18. gr. B í lögum 13 frá 1948.
Ríkisskattstjóri gerði svofelldar kröfur í málinu:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.
Röksemdir:
1. Með vísan til áður genginna úrskurða ríkisskatta nefndar um sambærileg ágreiningsefni, t.d. úrsk. nr. 302 frá 27. apríl sl. og úrsk. nr. 1040 frá 14. des. 1977, þykir verða að telja eftirlaunagreiðslurnar að fullu skattskyldar.
2. Um skattskyldu inneigna kæranda í Bandaríkjunum og vaxta af þeim virðist fara eftir 19. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 4. gr. laga nr. 60/1973 og 1. mgr. D-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 3. gr. laga nr. 7/1972.
3. Um heimildir íslenskra yfirvalda til úrskurðar í málum sem þessu hefur ekki verið talinn leika vafi. Kærandi er heimilisfastur hér á landi og um skattskyldu hans virðist alfarið fara eftir lögum nr. 68/1971 með síðari breytingum.“
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:
„Kærandi hefur látið af störfum í þágu Sameinuðu þjóðanna. Þegar af þeirri ástæðu þykja ákvæði VIII. kafla varðandi lausn deilumála í alþjóðasamningi um réttindi Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 13/1948, um heimild til staðfestingar umrædds samnings fyrir Íslands hönd, eigi koma til álita að því er úrskurðarvald snertir í þessum efnum.
Með vísan til B-liðs 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra að því er skattskyldu eftirlaunagreiðslna til kæranda snertir, enda verður ekki litið svo á að ákvæði H-liðar 10. gr. skattalaga taki til þessara greiðslna. Einnig ber að staðfesta ákvörðun skattstjóra um skattskyldu vaxta og eignarskattsskyldu bankainnstæðu erlendis, en 21. gr. skattalaga þykir ekki taka til hennar. Styðst sú skýring bæði við orðalag greinarinnar og hvernig ákvæðið er komið í lög nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, svo og að um undanþáguákvæði er að ræða frá skattskyldu, sem þykir bera að skýra þröngt.
Skattfrelsisákvæði b)liðar 18. gr. fyrrnefnds milliríkjasamnings þykja svo sem atvikum er háttað eigi verða skilin svo, að þau taki til ágreiningsefna í máli þessu með þeim hætti, sem haldið er fram af hálfu kæranda.“