Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 425/1992

Gjaldár 1989-1991

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. C-liður 2. tl. — 30. gr. 2. mgr. — 96. gr. 1. og 4. mgr. — 116. gr.  

Íbúðarhúsnæði — Skattskyldar tekjur — Húsaleigutekjur — Útleiga — Útleiga íbúðarhúsnæðis — Eigin notkun — Eigin notkun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, eigin notkun — Notkun húsnæðis — Sifjalið — Reiknaðar húsaleigutekjur — Húsaleigutekjur, reiknaðar — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat ríkisskattstjóra — Andmælareglan — Svarfrestur — Komudagur svarbréfs — Áætlun — Áætlun tekjuviðbótar — Tekjuviðbót, áætluð — Reiknaðar húsaleigutekjur (brúttó) — Beinn kostnaður — Beinn kostnaður á móti reiknuðum húsaleigutekjum — Málsmeðferð áfátt

I.

Málavextir eru þeir, að kærandi átti 1/3 í íbúð að X, Reykjavík. Ekki færði hann sér til tekna leigutekjur af eignarhluta þessum. Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 2. september 1991, og að fengnu svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 13. september 1991, tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 4. nóvember 1991, að áður álögð opinber gjöld hans gjaldárin 1989, 1990 og 1991 hefðu verið endurákvörðuð vegna tekjufærslu áætlaðra húsaleigutekna af nefndri íbúðareign 100.000 kr. í skattframtali árið 1989, 120.000 kr. í framtali árið 1990 og 140.000 kr. í framtali árið 1991. Tók skattstjóri fram í endurákvörðuninni, að bréfi sínu frá 2. september 1991 hefði ekki verið svarað.

Í kæru, dags. 12. nóvember 1991, mótmælti umboðsmaður kæranda málsmeðferð skattstjóra og vísaði til þess, að svarbréf, dags. 13. september 1991, hefði verið sent skattstjóra í ábyrgðarpósti sama dag og lagði fram ljósrit úr póstkvittanabók þessu til sönnunar. Efnislega hélt umboðsmaðurinn því fram, að tekjuhækkunin ætti ekki við rök að styðjast, en eins og fram kæmi í svarbréfi, dags. 13. september 1991, þá nýttu synir kæranda eignarhluta hans í íbúðinni vegna námsdvalar í Reykjavík endurgjaldslaust. Í svarbréfinu kom og fram, að kærandi notaði sjálfur íbúðina, þegar hann væri í Reykjavík.

Með kæruúrskurði, dags. 9. desember 1991, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Forsendur úrskurðarins eru svohljóðandi:

„Af óskiljanlegum ástæðum hefur svarbréfið frá 13/9 ekki komið fram á skattstofu, en í ljósritinu sem fylgir kærunni segir: Ofanritaður á 1/3 í íbúð á X, á móti sonum sínum A og B. Íbúðin hefur aldrei verið leigð út frá því að þeir keyptu hana saman. A og B hafa búið í íbúðinni ýmist báðir eða annar í einu, á meðan þeir hafa stundað nám í Reykjavík. Ofanritaður notar síðan íbúðina þegar hann hefur verið í Reykjavík. Ofanritaður lítur svo á að það sé hans stuðningur við syni sína í framhaldsnámi, að þeir nýti hans eignarhlut í íbúðinni endurgjaldslaust.

Ekki er fallist á skýringar í bréfi kæranda, sé íbúðarhúsnæði látið í té án endurgjalds ber að telja leigutekjur af því til tekna, jafnvel þótt húsnæðið sé nýtt af nánustu ættingjum.

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 2. janúar 1992. Umboðsmaðurinn reifar gang málsins, m.a. póstlagningu svarbréfs síns, dags. 13. september 1991, og móttöku þess af hálfu skattstofu. Síðan segir svo í kærunni:

„Ofanritaður á 1/3 í íbúðinni að X í Reykjavík á móti sonum sínum A og B. Íbúðin var ekki leigð út árin 1988-1990. Íbúðin hefur alfarið verið nýtt af ofanrituðum og sonum hans. Sjálfur hefur hann notað íbúðina þegar hann fer til Reykjavíkur, en hann ekur fersku kjöti til Reykjavíkur og gistir þá oft yfir nótt. Synir hans hafa verið í skólanámi, A frá haustinu 1988 til vors 1989 í skólanum, B frá 1987 til vors 1990 í skólanum. Ofanritaður lítur svo á að það sé stuðningur hans við syni sína í framhaldsnámi, að láta þeim í té hans eignarhluta í íbúðinni endurgjaldslaust. Íbúðin var keypt á sínum tíma vegna framhaldsskólanáms sonanna, því valið var annað hvort að leigja íbúð eða kaupa.

Það er aðalkrafa ofanritaðs að áætlaðar húsaleigutekjur skv. bréfi skattstofunnar dags. 4.11.1991 verði felldar niður þar sem ofanritaður hefur aldrei haft tekjur af umræddri íbúð og lét sonum sínum sinn eignarhluta í té endurgjaldslaust til stuðnings við þeirra skólanám.

Til vara er gerð sú krafa að leigutekjur verði miðaðar við 2,7% af fasteignamati.

1988 1989 1990

Reikn. leigutekjur 28.143 33.489 37.620

Fasteignagjöld -5.798 -6.937 -7.076

Rafmagn -3.064 -4.344 -5.157

Nettó tekjur 19.281 22.208 24.757“

III.

Með bréfi, dags. 20. mars 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Eftir atvikum er fallist á varakröfu kæranda.“

IV.

Það er við málsmeðferð skattstjóra að athuga, að ekki var rétt að endurákvarða áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárin 1989-1991 þegar í framhaldi af bréfi, dags. 2. september 1991. Í síðastnefndu bréfi fór skattstjóri fram á skýringar kæranda á því, að ekki væru taldar fram tekjur af eignarhlutdeild hans í íbúð að X, Reykjavík, en bréfið fól ekki í sér skýra vefengingu framtala kæranda að þessu leyti. Þá verður að telja leitt í ljós, að svarbréf kæranda, dags. 13. september 1991, hafi borist innan svarfrests. Var hin umdeilda endurákvörðun skattstjóra því ekki byggð á réttum grundvelli og fékk ekki staðist. Í 1. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er mælt svo fyrir um, að til skattskyldra tekna skuli m.a. teljast leigutekjur eftir hvers konar fasteignir. Í 2. mgr. sama tölul. er það ákvæði, að þegar heildartekjur af einstökum íbúðum ná ekki hlunnindamati húsnæðis, sbr. 116. gr., skuli reikna leiguna til tekna með því mati. Sú undantekning er gerð, að af íbúðarhúsnæði, sem skattaðili á og notar til eigin þarfa skuli hvorki reikna tekjur né gjöld. Þegar litið er til þess, hvernig notkun íbúðar þeirrar, er í málinu greinir, hefur verið háttað svo sem þessu er lýst af hálfu kæranda og ekki er vefengt, þykir fyrrnefnt undanþáguákvæði eiga við í hans tilviki. Samkvæmt því sem að framan greinir þykir bera að taka aðalkröfu kæranda til greina í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja