Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 527/1979
Gjaldár 1978
Lög nr. 68/1971, 11. gr.
Ofrádráttarbær kostnaður
Kærandi krafðist þess að leyfður yrði til frádráttar tekjum þóknun til lögmanns, er kærandi réði sér til þess að gæta réttar síns gagnvart skattyfirvöldum í tilefni athugunar rannsóknardeildar ríkisskattstjóra á skattframtölum hans svo og vegna sakadómsrannsóknar, er fylgdi í kjölfarið. Kostnaður þessi væri til orðinn vegna atvinnurekstrar kæranda frá fyrri árum og leiddi til þess að hagnaður af starfseminni yrði minni en ella. Væri hann því frádráttarbær samkvæmt E-lið 27. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, og 11. gr. skattalaga. Skattstjóri hafði synjað um frádrátt þennan á þeim forsendum, að ekki væri hér um kostnað að ræða til öflunar tekna.
Ríkisskattanefnd taldi lagaheimild skorta til þess að heimila hinn umdeilda kostnað til frádráttar og staðfesti úrskurð skattstjóra.