Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 207/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 11. gr. A-liður  

Frádráttur vegna kostnaðar við útsetningu tónverks - Tekjur af höfundarrétti

Málavextir voru þeir, að kærandi hafði fært til frádráttar á framtali sínu laun kr. 300.000. Móttakandi þessara launa hafði tekið að sér að undirbúa til hljómsveitarflutnings tónverk eftir eiginmann kæranda, sem var látinn.

Skattstjóri taldi launagreiðslu þessa ekki frádráttarbæra og strikaði hana út af framtalinu.

Umboðsmaður kæranda mótmælti þessari breytingu. Kærandi hefði tekjur af flutningi tónverka, sem eiginmaðurinn hefði samið. Þegar verk það, sem launamóttakandi setti í hljómsveitarbúning yrði flutt, fengi kærandi auknar tekjur.

Af hálfu ríkisskattstjóra voru gerðar svofelldar kröfur:

„Eins og mál þetta liggur fyrir virðist ekki unnt að fallast á að umræddur launakostnaður sé frádráttarbær frá tekjum kæranda á þessu stigi skv. A-lið 11. gr. skattalaganna. Verður því að krefjast staðfestingar á hinum kærða úrskurði.“

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Telja verður, að nægilega beint samband sé milli hinnar umdeildu kaupgreiðslu og tekna kæranda til þess að kostnaður þessi falli undir A-lið 11. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt. Er krafa kæranda því tekin til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja