Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1259/1979
Gjaldár 1978
Lög nr. 68/1971, 11. gr. A-liður
Skaðabótagreiðsla - Vísitölubætur
Kærandi færði til gjalda vísitölubætur á skuld, sem til varð fyrir bótakröfu, er kærandi tók á sig vegna slyss, er starfsmaður hans varð fyrir við vinnu hjá honum þann 15. des. 1975. Skattstjóri taldi, að eins og málsatvikum væri háttað, væri ekki að finna í skattalögum ákvæði um frádráttarhæfni þessarar greiðslu og strikaði út umræddan gjaldalið. Kærandi vildi hins vegar jafna þessum vísitölubótum við gengismun. Þegar slysabæturnar hefðu gjaldfallið í mars 1976 hefði kærandi ekki haft handbært fé og verulegur hluti greiðslunnar frestast fram á árið 1977.
Niðurstaða ríkisskattanefndar varð sú, að nefndin taldi mega fallast á kröfur kæranda með hliðsjón af þeim upplýsingum, er fyrir lágu í málinu varðandi bótaskyldu kæranda gagnvart tjónþola, enda yrði að telja greiðsluna hluta af heildarbótagreiðslu til hans.