Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 627/1979
Gjaldár 1978
Lög nr. 68/1971, 11. gr. A-liður
Frádráttarbærni - Erfðafjárskattur - Afborgun af skuld
Málavextir voru þeir, að kærandi fékk ásamt systur sinni arf eftir móður þeirra, er andaðist 23.2. 1977. Með skattframtali kæranda árið 1978 fylgdi efnahags- og rekstrarreikningur yfir fasteignir þær, er þau erfðu. Til frádráttar á móti leigutekjum af fasteignunum hafði m.a. verið færður fyrirfram greiddur skattur arfleifanda, erfðafjárskattur og afborgun af skuld. Skattstjóri strikaði þessa liði út með vísan til A-liðar 11. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt.
Ríkisskattanefnd staðfesti úrskurð skattstjóra með því að lagaheimild skorti fyrir frádráttarhæfi nefndra liða.