Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 675/1979

Gjaldár 1978

11. gr. A-liður, sbr. 15. gr. og 3. mgr. A-liðar 27. gr. reglug. nr. 245/1963  

Frádráttarbær kostnaður - Endurræktun lands - Fyrning

Kærð var sú breyting skattstjóra á framtali kæranda gjaldárið 1978 að strika út gjaldfærðan kostnað við endurræktun túns að fjárhæð kr. 212.940 á þeim forsendum, að ræktunarkostnaður kæmi fram í eignarverði túns, er væri fyrnanlegt.

Af hálfu kæranda var þess krafist, að kostnaður þessi yrði allur leyfður til frádráttar tekjum gjaldárið 1978, enda yrði að telja endurræktun túna hliðstæða viðhaldi girðinga og útihúsa. Fyrnt væri af fasteignamatsverði og hækkaði það mat ekki við endurræktun.

Ríkisskattstjóri taldi ekki heimilt samkvæmt gildandi skattalögum að gjaldfæra kostnað þennan með þeim hætti, sem kærandi krafðist.

Niðurstaða ríkisskattanefndar varð þessi:

„Í máli þessu er um að ræða endurræktun lands, er áður hefur verið brotið til ræktunar. Eigi þykja efni til að jafna ræktun þessari til nýræktar og jarðabóta, sem um ræðir í 3. mgr. A-liðar 27. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Með hliðsjón af þessu og vísun til A-liðar 11. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, þykir mega taka kröfur kæranda til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja