Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 257/1979

Gjaldár 1977

Lög nr. 68/1971, 11. gr., sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 257/1974  

Viðhaldskostnaður

Málavextir voru þeir, að skattstjóri lækkaði vegna endurbóta gjaldfærðan viðhaldskostnað kr. 3.264.542 á eignarhluta kæranda í tiltekinni húseign, fyrst um kr. 2.100.000, er hann lækkaði síðan við kæru í kr. 1.098.644. Frádráttarbær viðhaldskostnaður var því að mati skattstjóra kr. 2.165.898.

Umboðsmaður kæranda taldi, að lækkun skattstjóra á gjaldfærslunni eins og hún kæmi fram í úrskurði hans væri áætlanir án rökstuðnings, sem væri í ósamræmi við 3. mgr. 40. gr. laga nr. 68/1971.

Í úrskurði skattstjóra kom fram að hann taldi, að kærandi hefði ekki gefið nægilegar skýringar á hinum umdeilda breytingar- og viðhaldskostnaði eins og beðið hefði verið um í fyrirspurnarbréfi.

Húseign sú, er um var að ræða, var byggð á árunum 1935-1942 í tveimur áföngum. Í skattframtali árið 1976 var húseignin tilgreind hjá dánarbúi föður kæranda. Frá skiptum virtist hafa verið gengið á árinu 1976.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo um viðhaldsfrádráttinn:

„Viðhaldsfrádráttur sá, er í kærumáli þessu greinir, mun heimilaður á grundvelli 2. gr. reglugerðar nr. 257 frá 1974, samanber þau megin sjónarmið, er fram komu í 25. gr. reglugerðar nr. 245/1963. í 1. mgr. þeirrar greinar er frádráttarbært viðhald m.a. skýrt svo: „Viðhald telst það, sem gera þarf til þess að halda eignunum eða einstökum hlutum þeirra í svipuðu ástandi og þær voru í þegar aðili eignaðist þær, hvort heldur þær voru þá gamlar eða nýjar.“

Þessi regla hefir lengi verið talin gilda í skattskilum, sbr. hrd. 1943 XIV bls. 150, um frádráttarhæfi viðhaldskostnaðar.

Með hliðsjón af framanrituðu er kröfu kæranda hafnað.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja