Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 639/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 11. gr. sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 257/1974  

Viðhaldsfrádráttur - Eigendaskipti - Erfðir

Málavextir voru þeir, að kærandi varð fyrir erfð eigandi að 1/4 hluta húseignar í Reykjavík. Heimildarskjal kæranda og samerfingja hans var dagsett 30. desember 1971. Heimildarskjal arfleifanda, föður kæranda, var dagsett 4. september 1930. Hús þetta var byggt 1872. Gagnger endurbygging fór fram á því 1941, er faðir kæranda lét framkvæma. Á árinu 1977 var ráðist í umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir. Stærsti liðurinn fólst í efni og vinnu við að klæða húsið að utan með álplötum. Kom klæðning þessi í stað múrhúðunar, sem var orðin ónýt, en húsið var „forskallað“ timburhús. Samtals nam viðhaldskostnaður kr. 2.917.550, er var gjaldfærður á rekstrarreikningi. Tap samkvæmt rekstrarreikningi nam alls kr. 2.629.904 og færði kærandi hlutdeild sína (1/4) í því eða kr. 657.476 til frádráttar á skattframtali. Skattstjóri lækkaði gjaldfærðan viðhaldskostnað um kr. 2.317.550 eða í kr. 600.000. Að gerðri breytingu skattstjóra varðandi viðhaldskostnað svo og öðrum gjaldalið nam tap af rekstri húseignarinnar kr. 202.276 eða kr. 50.569 að hlut kæranda.

Að því er varðar hinn umdeilda viðhaldskostnað var því haldið fram af hálfu kæranda, að engar endurbætur hefðu verið gerðar á eigninni heldur einungis um þær lagfæringar að ræða, sem nauðsynlegar hefðu verið til að halda húseigninni í svipuðu ástandi og verði, sem hún var í, þegar hún komst í hendur núverandi eigenda eða arfleifenda þeirra, enda væri ekki unnt að líta svo á, að eignarhaldstími í þessum efnum rofnaði við erfðir. Var bent á, að húseignin hefði orðið óíbúðarhæf og ónýt innan fárra ára, ef ekki hefði verið ráðist í viðhaldsframkvæmdirnar.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir m.a. svo:

„Viðhaldsfrádráttur sá, er í máli þessu greinir, er heimilaður á grundvelli 2. gr. reglugerðar nr. 257 frá 1974, sbr. þau meginsjónarmið, er fram komu í 25. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Í 1. mgr. þeirrar reglugerðar er frádráttarbært viðhald m.a. skýrt svo: „Viðhald telst það, sem gera þarf til þess að halda eignunum eða einstökum hlutum þeirra í svipuðu ástandi og þær voru í, þegar aðili eignaðist þær, hvort heldur þær voru þá gamlar eða nýjar.“ Ákvæði greinar þessarar þykir bera að skýra svo, að þau taki jafnt til þeirra eigendaskipta, er verða fyrir erfðir, sem og með öðrum hætti.

Sérákvæði 12. mgr. E-liðs 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971 verða ekki talin breyta neinu þar um.

Fallast ber á það með skattstjóra að hinn umdeildi kostnaður feli í sér bæði viðhald og endurbætur. Með tilliti til þess svo og eignarhaldstíma kæranda þykir frádráttarbær viðhaldskostnaður hæfilega ákveðinn kr. 900.000 alls eða kr. 225.000 að hluta kæranda.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja