Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 427/1992
Gjaldár 1991
Lög nr. 75/1981 — 28. gr. 2. tl. — 92. gr. — 96. gr. 1. og 3. mgr.
Skattskyldar tekjur — Skattfrjálsar tekjur — Skattfrelsi — Eignaauki — Skattfrjáls eignaauki — Eignaauki, skattfrjáls — Dánarbætur — Eingreiðsla — Breytingarheimild skattstjóra — Fyrirspurnarskylda skattstjóra — Andmælareglan — Málsmeðferð áfátt — Launamiði — Upplýsingaskylda — Stéttarfélag — Sjúkrasjóður — Sönnun — Sönnunarbyrði — Tekjur í lifanda lífi
I.
Málavextir eru þeir, að eiginmaður kæranda andaðist hinn 9. maí 1990. Kæranda voru greiddar bætur 313.625 kr. úr Sjúkrasjóði Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Kærandi gat um greiðslu þessa í athugasemdadálki skattframtals árið 1991, en færði hana ekki til tekna með því að um dánarbætur væri að ræða. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1991 bætti skattstjóri umræddri fjárhæð við tekjuskatts- og útsvarsstofn eiginmanns kæranda.
Í kæru, dags. 26. ágúst 1991, mótmælti umboðsmaður kæranda skattlagningu dánarbótanna. Í bréfi, dags. 8. nóvember 1991, krafði skattstjóri kæranda um rökstuðning og gögn fyrir skattfrelsi greiðslunnar á þeim grundvelli, að um dánarbætur væri að ræða. Í tilefni af þessu bréfi sendi umboðsmaður kæranda ljósrit greiðslukvittunar til skattstjóra. Með kæruúrskurði, dags. 29. nóvember 1991, synjaði skattstjóri kæranda um niðurfellingu skattlagningar á umrædda greiðslu. Bar skattstjóri því við, að af hálfu kæranda hefði einungis verið lögð fram greiðslukvittun frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur en ekki annar rökstuðningur. Framlögð kvittun þætti ekki nægjanleg sönnun þess, að um skattfrjálsar dánarbætur hefði verið að ræða, þar sem hún bæri ekki með sér, hvernig greiðslan hefði verið ákvörðuð.
II.
Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 31. desember 1991. Þess er krafist, að skattlagning verði felld niður af dánarbótum 313.625 kr. frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur á þeim grundvelli, að bætur þessar teljist ekki til tekna samkvæmt 2. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Tekur kærandi fram, að bæturnar hafi verið ákvarðaðar í einu lagi til greiðslu og byggist á 3. gr. starfsreglna fyrir framkvæmdastjórn Sjúkrasjóðs Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Fylgdu reglur þessar kærunni svo og ljósrit launamiða frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, þar sem umrædd greiðsla er gefin upp sem dánarbætur.
III.
Með bréfi, dags. 20. mars 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum er fallist á kröfu kæranda.“
IV.
Þá athugasemd verður að gera við málsmeðferð skattstjóra, að ekki verður séð, að hann hafi tilkynnt kæranda um hina umdeildu breytingu hvað þá að hann hafi gefið kæranda kost á að gæta hagsmuna sinna, áður en breytingin var ákveðin svo sem réttara hefði verið, ef til stóð af hálfu skattstjóra að hreyfa við þessu atriði framtalsins. Skattstjóri bætti hinni umdeildu greiðslu við tekjuskatts- og útsvarsstofn hins látna og verður að álíta, að sú ákvörðun hafi byggst á því, að skattstjóri hafi talið, að hér væri um að ræða tekjur hans í lifanda lífi. Þegar litið er til þess, sem upplýst er um nefnda greiðslu af hálfu kæranda og fram kemur í greiðsluuppgjöf Verslunarmannafélags Reykjavíkur og reglum sjúkrasjóðs þess félags, sem innti greiðsluna af hendi, þykir ótvírætt leitt í ljós, að greiðsluna beri ekki að telja til tekna, sbr. 2. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er krafa kæranda því tekin til greina.